Engar faglegar athugasemdir við fyrirætlanir Fjarðabyggðar

Mennta- og barnamálaráðuneytið gerir ekki efnislegar athugasemdir við þær breytingar sem bæjarstjórn samþykkti í febrúar að gera á fyrirkomulagi fræðslustofnana sveitarfélagsins. Þær virðist ef eitthvað er falla að ýmsum markmiðum farsældarlaganna. Þá telur ráðuneytið sveitarfélagið hafa talsverðar heimildir til að gefa fyrirmæli um hvernig stjórnun skóla er hagað. Það viðhafði hins vegar ekki það samráð sem því var ætlað.

Austurfrétt greindi í morgun frá áliti mennta- og barnamálaráðuneytisins á kvörtun Kennarasambandsins vegna breytinga á fræðslustofnunum Fjarðabyggðar. Þær fela í grófum dráttum í sér sameiningu skóla eftir skólastigum og uppsagnir aðstoðarskóla og deildarstjóra sérkennslu en ráðningar fagstjóra fyrir skólasviðin og sérfræðinga í skólaþjónustu.

Kennarasambandið sendi ráðuneytinu kvörtun vegna málsins þar sem það velti upp hvort breytingarnar stæðust faglegar kröfur, svo sem í lögum um farsæld barna og hvort um of væri gengið inn á verksvið skólastjórnenda í mannaráðningum, einkum um millistjórnendur og verksvið þeirra.

Skortur á samráði


Ráðuneytið sendi í gær frá sér tvö svarbréf. Hið fyrra var birt á vef Fjarðabyggðar í gærkvöldi og fjallað um á Austurfrétt í morgun. Þar hafnar ráðuneytið þeirri röksemd að sveitarfélagsins að breytingarnar séu minniháttar sem þýðir að þær eiga að fara til umsagnar hjá skólaráði grunnskóla og foreldraráði leikskóla. Beint er til bæjarstjórnar að fá umsagnir þaðan og taka málið svo fyrir að nýju.

Hitt bréfið er stílað á Kennarasambandið en Austurfrétt hefur fengið eintak af því. Bréfin eru í meginatriðum samhljóma, þótt á þeim sé blæbrigðamunur eftir því hvaða fyrirmæli eiga við hvaða viðtakanda. Vitnað er til þeirra á víxl af hálfu ráðuneytisins.

Fyrirkomulag Fjarðabyggðar stenst lög


Kennarasambandið óskaði álits á hvort fyrirkomulag Fjarðabyggðar væri löglegt og taldi sveitarfélagið svo vera með vísan til ákvæða um sjálfákvörðunarrétt sveitarfélaga í stjórnaskrá. Undir það tekur ráðuneytið, segir sveitarfélögin bera ábyrgð á rekstrinum og því geta hagað honum eftir hag, þótt þau þurfi um leið að huga að öðrum lögum sem gildi. Niðurstaðan sé það fyrirkomulag sem Fjarðabyggð hafi kynnt stangist ekki á við lög.

Nánar er farið yfir hvernig ráðuneytið hafi lagt áherslu á stefnumótun með samþættri þjónustu eða samstarfi þvert á skólastig, eins og boðað er í farsældarlögunum. Jafnframt hafi ráðuneytið unnið að því að styrkja miðlægar einingar með sem mestri fagþekkingu til að mæta þörfum allra barna innan skólakerfisins. Fjarðabyggð hefur sagst vera að gera þetta með ráðningu sérfræðinga til skólaþjónustu sinnar.

Þess vegna gerir ráðuneytið ekki faglegar athugasemdir við fyrirætlanirnar, svo lengi sem það tryggi lögbundna þjónustu og hugi að réttindum og skyldum allra sem í hlut eigi.

Sveitarfélögin hafa heilmikið um stjórnskipulagið að segja


Í bréfinu til Kennarasambandsins fjallar ráðuneytið einnig ítarlegar um heimildir Fjarðabyggðar til að ákveða starfsheiti og verksvið millistjórnenda. Kennarasambandið taldi lög um grunnskóla þannig úr garði gerð að skólastjóri sjái einn um ráðningar millistjórnenda og skilgreina verksvið þeirra.

Um það atriði segir ráðuneytið að að það geri ekki athugasemdir við að sveitarfélög taki ákvarðanir sem feli í sér tilmæli til skólastjórnenda um hvernig þeir hagi ákveðnum þáttum. Fjallað er um að í lögum er talað um að skólastjórar eigi að gera tillögu um hvernig þeir vilji að stjórnskipulagi skóla sé háttað en ekkert sé því til fyrirstöðu að sveitarstjórn ákveði annað.

Ráðuneytið segir sveitarfélagið geta ákveðið starfsheiti og svarfssvið svo framarlega sem ákvarðanirnar séu almennar þótt endanleg ákvörðun kunni að vera í höndum skólastjóra.

Ráðuneytið telur þannig að Fjarðabyggð hafi verið heimilt að ráðast í uppsagnir á grundvelli ákvörðunar sinnar, enda séu þær almennar en snúi ekki að einstökum starfsmönnum. Miðað við gögn málsins séu formlegar ákvarðanir um starfssambönd einstakra starfsmanna teknar síðar af þeim aðilum sem eru til þess bærir að taka þær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.