Skip to main content

Engar framkvæmdir við Eskifjarðarskóla fyrr en kennslu lýkur í vor

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. apr 2023 09:44Uppfært 27. apr 2023 09:46

Ekki er talið ráðlegt að ráðast í neinar framkvæmdir til að komast í veg fyrir raka og myglu í húsnæði Eskifjarðarskóla fyrr en skólastarfi lýkur í vor. Undanfarna daga hefur verið unnið að því að finna aðstöðu fyrir starfsemi af neðstu hæð skólans sem var lokað fyrir viku.


Á jarðhæðinni fannst mikill raki í gólfplötu. Ekki er ljóst hvaðan hann kemur og er frekari rannsókna þörf á því. Tveimur stofum á efri hæðum skólans var einnig lokað auk þess sem lokað var milli jarðhæðar og efri hæða.

Skýrsla Eflu um ástandið í Eskifjarðarskóla lá fyrir um miðja síðustu viku. Hún er afrakstur rannsókna sem staðið hafa síðustu mánuði en mygla var staðfest í skólahúsnæðinu í janúar. Íþróttahúsinu var þá lokað.

Margvísleg starfsemi var á neðstu hæðinni sem að einhverju leyti er hægt að flytja til. Þannig er elsta deild leikskólans komin inn í matsalinn á Dalborg. Á meðan svo stendur matast börn inni á sínum deildum.

Tónlistarskólinn var fluttur í Valhöll þar sem starf hans verður með eðlilegum hætti. Frístund grunnskólans verður í stofum á annarri hæð. Kennsla í smíðum og handmennt verður aðlöguð að breyttum aðstæðum en íþróttakennsla er færð út. Skólabókasafninu var flutt til en almenningsbókasafnið er lokað.

Enn er óljóst hvernig farið verður í endurbætur en samkvæmt ráðleggingum verður ekki hróflað við neinu fyrr en skólastarfi lýkur. Samkvæmt skóladagatali eru skólaslit mánudaginn 5. júní. Ekki er von á frekara mati á stöðunni fyrr en um það leyti. Eftir er að skoða fleiri svæði, meðal annars þak skólans.

Eftir er að vinna verktaka en mikil eftirspurn er eftir þeirra þjónustu á Austurlandi. Engin framkvæmdaáætlun liggur fyrir og hóflegar væntingar um að viðgerðum verði lokið áður en skólastarf hefst á ný seinni hluta ágúst. Á fundi með foreldrum um stöðuna á mánudag sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri að væntanlega yrði lögð áhersla á að klára efri hæðir fyrst til að ná þeim í fulla notkun.