Skip to main content

Engar reglur um hljóðmengun frá skemmtiferðaskipum á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2023 16:52Uppfært 11. ágú 2023 18:48

Hafnarvörðurinn á Seyðisfirði segir engar sérstakar reglur gilda um hávaða eða hljóðmengun í þeim austfirsku höfnum sem skemmtiferðaskip venja komur sínar til. Hann hyggst þó í kjölfar umfjöllunar um málið taka það upp hjá hafnarstjórn Múlaþings við næsta tækifæri.

Fyrr í dag greindi Austurfrétt frá kvörtun í bænum vegna háværra kallkerfa stöku skemmtiferðaskipa sem leggja að í Seyðisfirði en um það má lesa hér. Þar var tilkynning í kallkerfi til farþega eins skipsins það hávær að það beinlínis truflaði fólk í landi.

Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður, segist þekkja til þessa atviks. Hann hafi vissulega orðið þess var en þó án þess að kippa sér mikið upp við það sjálfur.

„Ég heyrði þetta vel og þessi tilkynning líklega með því háværara sem ég hef heyrt. Sjálfur lét ég þetta um eyru þjóta og truflaði mig ekki þó ég sé nú almennt uppstökkari en andskotinn. En ég skil vel á ef einhverjir taka slíkt nærri sér. Ég hef reyndar áður heyrt fólk kvarta yfir þegar skipin básúna brottför með einhverjum háværum flautum og ég hef mikinn skilning á því þar sem þessi flaut geta verið dálítið drungaleg og komið fólki í opna skjöldu enda hávær mjög.“

Rúnar segir meðvitaður um hljóðmengun slíkra skipa sérstaklega eftir að hafa fundað fyrir aðeins fyrir viku síðan með hafnaryfirvöldum í Bergen í Noregi. Þar gilda mjög strangar reglur fyrir skemmtiferðaskipin sem þangað koma.

„Nú er það svo hér að það eru engar sérstakar reglur í gildi um hávaða eða hljóðmengun frá skemmtiferðaskipum en ég veit sem er, eftir að hafa fundað með hafnarstjórninni í Bergen í Noregi fyrir bara viku síðan, að allt svona er beinlínis bannað held ég í öllum höfnum þess lands. Þar er ekki leyfilegt að brúka nein kallkerfi utan á skipinu sem dæmi, flaut hvers kyns óheimilt og heldur má ekki halda neinar skemmtanir utandyra í skipunum meðan þau eru í höfn.“

Rúnar hyggst taka málið upp við hafnarstjóra á næstunni.