Skip to main content

Engar stórhækkanir á flugeldum eins og gefið hefur verið í skyn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2021 10:57Uppfært 27. des 2021 12:01

„Þetta hefur nú verið töluvert orðum aukið í sumum fjölmiðlum að undanförnu,“ segir Hjalti Þórarinn Ásmundsson, hjá björgunarsveitinni Ársól á Reyðarfirði, vegna fregna þess efnis að verð á flugeldum hafi hækkað mikið milli ára vegna flutningskostnaðar.

Árleg flugeldasala björgunarsveita landsins hefst á morgun og á Reyðarfirði sem annars staðar en flugeldasalan er stærsta fjáröflun sveitanna á ársgrundvelli.

Hjalti segist mjög bjartsýnn á söluna nú ekkert síður en í fyrra en þá var salan með allra mesta móti hjá Ársól. Hann segir þó að verðhækkanir hafi mjög verið blásnar út í stórum fjölmiðlum.

„Það eru engar stórhækkanir á flugeldunum þetta árið þótt sumir miðlar hafi gefið það í skyn. Mér sýnist hjá okkur að mesta hækkunin sé um 10 prósent en að stærstu leyti er um minni hækkanir að ræða en það. Vissulega jókst flutningskostnaðurinn hingað til lands en á móti þá reyndist gengið hagstætt og jafnaði þetta töluvert út.“

Sala hjá Ársól og flestum öðrum björgunarsveitum austanlands hefst síðdegis á morgun og verður opið síðdegis alla vikuna og lengri opnunartími á gamlársdag.