Engin ný smit á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. des 2021 21:44 • Uppfært 21. des 2021 21:46
Engin smit greindust á Austurlandi síðastliðinn sólarhring samkvæmt upplýsingum frá aðgerðarstjórn almannavarna. Það þrátt fyrir metsmitfjölda á landsvísu.
Hins vegar greindust yfir liðna helgi ein átta smit og nú eru 42 á Austurlandi í einangrun og 66 í sóttkví þegar þetta er skrifað.
Fram kemur í tilkynningu aðgerðarstjórnar að ljóst sé að faraldurinn sé á uppleið á landsvísu og metfjöldi smita greindist innanlands í gær. Tilkynnt hafi verið um hertar innanlandsreglur og fyrirtæki og stofnanir séu hvött til að kynna sér nýjar reglur í þaula og huga ítarlega að sóttvörnum.
Aðgerðarstjórn tekur fram að undanfarið hafi verið tekin færri PCR-sýni á Reyðarfirði og Egilsstöðum en verið hefur og það gæti skýrt færri nýgreind smit í fjórðungnum. Aðgerðastjórn vill því hvetja alla þá sem telja sig hafa verið útsetta fyrir smiti, hafa verið í margmenni eða eru með einhver einkenni sem geta bent til COVID-19, að fara í PCR sýnatöku.