Engin stór mál hjá lögreglu á Austurlandi þrátt fyrir átján þúsund gesti
Þrátt fyrir nokkuð glimrandi veður og tvær stórar hátíðir á Austurlandi um helgina; Unglingalandsmót á Egilsstöðum og Nestaflugshátíðina í Neskaupstað, gekk allt stórslysalaust fyrir sig. Lögregla segir varlega áætlað að um átján þúsund gestir hafi heimsótt fjórðunginn yfir þennan tíma.
Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir skömmu var töluverður viðbúnaður af hálfu lögreglu vegna helgarinnar og reyndar dagana fyrir helgi því Unglingalandsmótið var sett á fimmtudaginn var. Hámarksmönnun var af þeirra hálfu bæði við almennt umferðareftirlit en einnig á vel sóttri hátíðinni í Neskaupstað, þar sem um tvö þúsund manns skemmtu sér hið besta, og ekki síður á Egilsstöðum.
„Heilt yfir gekk helgin vel í umdæminu. Alls eru í kerfum lögreglu 247 mál og bókanir eftir hana. Engin stór mál komu inn á borð lögreglu, engar líkamsárásir komu upp,“ segir Hjalti Bergmann Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Tvö minniháttar umferðarslys komu inn á borð lögreglunnar og er ökumaður annarrar bifreiðarinnar grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Alls voru 153 ökumenn kærðir fyrir brot á umferðarlögum og þar af 140 fyrir of hraðan akstur, flestir þeirra á þjóðveginum á milli Austur- og Norðurlands. Sá sem hraðast ók mældist á 142 kílómetra hraða. Að okkar mati var heldur mikið um brot á umferðarlögum en við gleðjumst yfir því að engin slys urðu í umferðinni og öll komust heil heim.“
Venju samkvæmt reynir lögregla að áætla grófa tölu gesta á samkomum hvers kyns. Að sögn Hjalta er varlega áætlað að um sex þúsund gestir hafi verið á Unglingalandsmótinu, tvö þúsund skemmt sér á Neistaflugshátíðinni. Þess utan hafi velflest tjaldsvæðí Austurlands verið troðin og í heild hafi gestafjöldi vart verið undir átján þúsund manns í heildina.
Unglingalandsmótsgestir fengu lítils háttar blástur um tíma um helgina en almennt var veðrið betra á Austurlandi en annars staðar í landinu. Mynd GG