Enginn munur á rafmagnsreikningum með snjall- eða skífumælum
Meginástæða þess að rafmagnsnotendur með uppsetta snjallmæla geta upplifað þúsunda- eða jafnvel tugþúsunda hækkun á rafmagnsreikningnum mánaða milli er að þeir mælar mæla notkun í rauntíma ólíkt gömlu skífumælunum. Það getur skipt sköpum eftir árferði en endaniðurstaðan yfir árið er sú sama.
Fjöldi fólks hefur vakið máls á því á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur að svo virðist sem rafmagnsreikningarnir hafi tekið heljarstökk upp á við upp á síðkastið. Ekki hvað síst á köldum svæðum Austurlands þar sem mörg heimili og vinnustaðir þurfa að nýta rafmagn til húshitunar.
Í frétt í síðustu viku voru færð rök fyrir að miklar hækkanir kynnu að skýrast af því að svokallaðir snjallmælar sem settir hafa verið upp hjá sífellt fleiri einstaklingum og fyrirtækjum væru ein helsta orsök hærri reikninga. Þeir mælar væru að taka svokallað launafl inn í reikninginn umfram gömlu skífumælana eins og lesa má um hér.
Launafl ekki rukkað
Egill Jónasson, framkvæmdastjóri viðskiptaþjónustu hjá Rarik, segir rétt að launafl sé mælt með snjallmælum þar sem þeir væru komnir upp en fyrirtækið rukki ekki fyrir þá notkun og það standi ekki heldur til. Það sé ekki ástæðan ef fólk upplifir mun hærri reikninga en venjulega.
„Allir sem eru með snjallmæla uppsetta fá í kjölfarið nákvæma reikninga fyrir raunnotkun þeirra á rafmagni fyrir hvern mánuð. Það merkir að upphæð reikninganna getur breyst töluvert mikið eftir árstíðum og kannski ekki hvað síst á Austurlandi þar sem margir verða að gera sér að góðu að nota rafmagn til kyndingar húsa sinna. Notkun er því eðlilega mun meiri yfir köldustu mánuðina en minni þess utan og reikningar endurspegla þetta nú í rauntíma. Með skífumælunum er bara tekinn álestur einu sinni árlega og svo áætlað á hina mánuði ársins. En fólk fær engu að síður réttan reikning á endanum.“
Með öðrum orðum eru snjallmælareikningar nákvæm útlistun á raunnotkun hvern einasta mánuð í stað þess að fá álestur, áætlun og svo hugsanlega bakreikning þegar og ef ársnotkunin reynist hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Þegar upp er staðið verður reikningurinn sá sami yfir árið.
Aðspurður um hvort fólk muni áfram eiga þess kost að láta skífumæla duga ef fólk svo kýs segir Egill að ekki standi til að neyða fólk til að skipta í nýrri mæla heldur reyni Rarik frekar að vinna allt slíkt í samvinnu við hvern og einn. Það muni þó koma að því einn góðan veðurdag að fólk þurfi að skipta enda séu snjallmælar nauðsynlegir til að vinna að þriðju orkuskiptum landsmanna. Það einungis með slíkum mælum sem almenningur eða fyrirtæki geti í framtíðinni selt sína eigin orku út á netið sé til staðar heimavirkjun, sólarsellur eða slíkt.
Tvær verðhækkanir á árinu
Hluti hærri reikninga skýrast líka af tveimur verðhækkunum Landsnets það sem af er ári en þaðan fá dreifiveituaðilar á borð við Rarik sína orku. Fyrsta hækkunin kom strax 1. janúar síðastliðinn sem Rarik áætlaði að hækkaði meðalreikning heimilis á milli 2,9% og 3,9% eftir staðsetningu. Síðari hækkun ársins varð 1. mars þegar Landsnet hækkaði aftur flutningsverð sitt sem hafði í för með sér 2% til 3% frekari hækkun á meðalreikning heimila og fyrirtækja.
Egill segir ljóst að Rarik þurfi að hækka sínar eigin gjaldskrár með tilliti til slíkra hækkana en ekki síður vegna nauðsynlegra fjárfestinga til framtíðar.
„Við munum sjálf þurfa að hækka okkar verðskrár til að koma til móts við hækkandi kostnað í okkar eigin rekstri og framþungar fjárfestingar fyrir framtíðina. Við höfum lagt áherslu á það við stjórnvöld að þau komi með breiðari hætti að jöfnun orkukostnaðar fyrir fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni, og sér í lagi á köldum svæðum, þar sem okkur þykir ekki réttlætanlegt að þau beri hitann og þungann af kostnaði vegna orkuskiptanna. Við erum með viðskiptavinum okkar í liði enda er það er okkar hagur að byggðir landsins vaxi og dafni.“