Fámennt en góðmennt í plokkinu á Vopnafirði
Svo til hálfur ruslagámur fylltist eftir að Vopnfirðingar tóku sig til og plokkuðu bæinn sinn á sunnudaginn var en þá fór fram Stóri plokkdagurinn um land allt.
Plokk sem svo er kallað er orðið að hálfgerðri dægrastyttingu hjá mörgu fólki sem slær tvær flugur í einu höggi með því að hreinsa nærumhverfi sitt og njóta jafnframt góðrar heilsubótargöngu. Íbúar á Vopnafirði létu sitt ekki eftir liggja af sögn Odds Péturs Guðmundssonar, sem ræður ríkjum í áhaldahúsi bæjarins.
„Það var nú reyndar ekkert fjölmenni að taka þátt miðað við það sem skilaði sér í gáminn en hann settum við sérstaklega út vegna plokkdagsins því gámastöðin var lokuð þann daginn. Ætli það hafi ekki fyllst að hálfu eða svo sýndist mér. En svo getur vel verið að ekki allir hafi skilað af sér ennþá.“
Plokkdagurinn hefur verið árlegur viðburður á Vopnafirði um nokkurra ára skeið og segir Oddur að alltaf sé góður kjarni sem taki þátt. Hann segir líklegt að fleiri hefðu plokkað rusl ef ekki hefði verið um langa helgi að ræða eins og nú var raunin.
„Það voru nokkrir sem héldu burt í ferðalag þessa helgina eftir því sem ég heyri og það kannski hefur haft áhrif á þátttökuna. Það kom þó ekki að sök því það er lítið sem ekkert af rusli sjáanlegu í eða við bæinn. Hafi eitthvað orðið eftir þá taka krakkarnir í unglingavinnunni strax á því en svona plokk er einmitt það fyrsta sem við förum í með þeim þegar það hefst.“