Skip to main content

Farsældarsáttmáli skal efla foreldrastarf í þágu barna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2023 10:30Uppfært 04. maí 2023 10:30

„Það var bara vel mætt miðað við aðstæður í stóru sveitarfélagi og töluverður fjöldi fylgdist með gegnum streymi,“ segir Sigurður Sigurðsson, frá samtökunum Heimili og skóli, en samtökin héldu foreldrafund á Fáskrúðsfirði í gær.

Í byrjun ársins fengu samtökin góðan styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til að efla foreldrastarf í þágu farsældar barna um land allt. Ýmis merki eru um að mikið hafi dregið úr virku samstarfi skóla og heimila síðustu árin og sérstaklega hefur staðan versnað eftir Covid að sögn Sigurðar.

„Það er sannarlega raunin. Það hefur lengi verið brotalöm á þessu mikilvæga samstarfi foreldra og skóla og það versnaði töluvert í faraldrinum. Það greinilegt að inniveran hefur haft áhrif og aldrei verið erfiðara að fá fólk á fundi og annað slíkt jafnvel þó það varði börnin. Þannig að við erum að reyna að ráða bót á því og það gerum við með svokölluðum farsældarsáttmála sem við innleiðum í skólum landsins. Við einmitt óskum eftir innleggi frá foreldrum og öðrum sem áhuga hafa á að vera með. En það engin spurning að stórefla þarf foreldrastarf gagnvart börnunum.“

Umræddum farsældarsáttmála er ætlað að endurreisa og efla allt foreldrastarf í góðu samstarfi við lykilaðila á öllum skólasamfélagsins. Sérstaklega skal stutt við foreldra barna af erlendum uppruna.

„Þetta snýst um að virkja foreldra enda margsýnt að stuðningur foreldra við börnin er lykilþáttur í öllum forvörnum. Öll samvinna hjálpar öllum sem að koma og það má koma í veg fyrir stór vandamál framtíðarinnar með því að skipuleggja sig og vinna saman að hlutunum. Það er svona grunnurinn að sáttmálanum að komast að samkomulagi áður en vandamál gerir vart við sig.“

Mjög hefur dregið úr félagsstarfi foreldra í skólum landsins og víðar en nú skal snúa þeirri þróun við. Mynd mennta- og barnaráðuneytið