Farsímasambandi á stofnvegum seinkað um tvö ár
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. maí 2025 12:58 • Uppfært 14. maí 2025 13:00
Lokum uppbyggingar á farsímasambandi á stofnvegum á Íslandi verður seinkað um tvö ár, miðað við tillögu Fjarskiptastofu. Fjármagn fékkst ekki til að ljúka uppbyggingunni fyrir lok árs 2026. Ellefu nýir farsendar á Austurlandi eru hluti af uppbyggingunni.
Í úttekt Sambands austfirskra sveitarfélaga (SSA) á fjarskiptum á Austurlandi var vakin athygli á að áform um að fulla dekkun stofnvega landsins fyrir lok ársins 2026 væru í uppnámi vegna þess að ríkið hefði ekki tryggt nægt fjármagn til Öryggisfjarskipta ehf., systurfélags Neyðarlínunnar.
Samhliða því sem símafélögunum eru úthlutaðar tíðnir til reksturs kerfa eru lögð á þau kvaðir, svo sem um dekkun. Það er í höndum Fjarskiptastofu sem í lok síðasta árs vakti athygli á afleiðingum skorts á fjármagni.
Fimm ára seinkunn á auknum hraða
Fjarskiptastofa hefur nú birt samráð, sem í raun eru tillögur hennar, um hvernig verði brugðist við stöðunni. Helstu tillögur þar eru að dekkun á stofnvegum á að vera orðin 99% í lok árs 2027 og 100% í lok árs 2028, sem er seinkunn um tvö ár. Á Austurlandi eru það Hringvegurinn, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Hellisheiði, Vatnsskarð, Breiðdalsheiði og Norðfjarðarvegur sem falla undir þá skilgreiningu.
Þá var gert ráð fyrir auknum gagnaflutningshraða, úr að minnsta kosti 10 mb/sek í 30 eða 150 mb/sek fyrir lok árs 2031. Lokum þess verkefnis er seinkað um fimm ár. Miðað við þetta á 30 mb/sek samband að vera komið á Hringveginn, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Norðfjarðarveg í lok árs 2032 og 150 mb/sek í lok árs 2034. Á Öxi, Breiðdalsheiði, Hellisheiði og Vatnsskarð verði 30 mb/sek komið á í lok árs 2036 og 150 mb/ sek samband í lok árs 2038.
Forsenda þessa eru 11 nýir sendar á Austurlandi. Þrír áttu að dekka Vatnsskarð og Borgarfjörð, tveir Skriðdal, tveir nesin sitthvoru megin Stöðvarfjarðar, einn Berufjörð, annar Hamarsfjörð og sá þriðji Streitishorn. Loks átti að koma sendir á Fagradal til að dekka þekkta eyðu nærri Grænafelli.
Öryggisfjarskipti leiði skipulag en sé ekki fjárfestir
Fleiri tilslakanir eru lagðar til. Heimilt verður að nota lita sendastaði sem tengjast gervihnöttum en ekki farsímanetinu sjálfu, að samnýta nýja sendastaði óháð umferðarmagni og Öryggisfjarskipti leiði skipulag og staðarval en fjárfesti ekki í sendunum. Þá verður símafélögunum heimilt að nýta neyðar- og öryggistíðni sem Öryggisfjarskipti eiga meðan fyrirtækið hefur ekki uppbyggingu sjálft.
Málefni fjarskipta færðust formlega undir innviðaráðuneytið um miðjan mars, en þau hafa frá árinu 2021 verið innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Þegar Austurfrétt spurðist fyrir um stöðu vinnunnar í kjölfar úttektarinnar fyrir SSA var vísað til þess að Fjarskiptastofa beri ábyrgð á verkefninu og ný tímalína liggi endanlega fyrir að loknu samráðsferlinu.