Fermetraverð á húsnæði næstlægst á Austurlandi
Meðalfermetraverð á sérbýlum á Austurlandi er um 225 þúsund krónur en aðeins á Vestfjörðum er meðalverðið lægra en það á landinu. Til samanburðar er meðalfermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu tæplega 545 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í nýlegri úttekt Tryggðar byggðar sem er samstarfsvettvangur allmargra aðila um endurnýjun og uppbyggingu nýs húsnæðis á landsbyggðinni.
Íbúðaverð á Austurlandi öllu hefur hækkað um 36 prósent umfram almennt verðlag frá því byrjun árs 2014 sem er einnig töluvert lægra en víðast hvar annars staðar í landinu.
Skýrsluhöfundar telja það reyndar kost fremur en ekki sökum þess að með hækkandi fasteignaverði fer þeim tilfellum fjölgandi þar sem það getur borgað sig að byggja nýjar íbúðir. Lítill hvati sé til þess ef fasteignaverð er undir byggingarkostnaði.