Afdrif fiskeldis í Seyðisfirði gæti haft áhrif á uppbyggingu á Djúpavogi

„Ég hef nú reyndar trú á að okkur takist að skapa víðtæka sátt um uppbyggingu fiskeldis á Seyðisfirði en ef það fer á versta veg þá gæti það haft auðvitað áhrif á uppbyggingaráform okkar á Djúpavogi,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa Fiskeldis.

Á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings var tillaga umhverfis- og framkvæmdaráðs um hefja breytingar á aðalskipulagi Djúpavogshrepps samþykkt. Þörf er á slíkri breytingu ef fyrirhuguð uppbygging Búlandstinds á nýju sláturhúsi á staðnum á að ganga eftir en Búlandstindur er í eigu Laxa Fiskeldis og annarra aðila í þeim geira. Þarf bæði að stækka athafnasvæði og hafnarsvæði og skal samhliða hefja frumhönnun á nýrri höfn sem yrði hluti af breytingarferlinu.

Eini sveitarstjórnarfulltrúinn sem ekki greiddi tillögunni atkvæði var Hildur Þórisdóttir, Austurlistanum, en ekki sökum þess að hún væri ekki hlynnt atvinnuuppbyggingu á Djúpavogi heldur vegna þess að áætlanir Búlandstinds um byggingu nýs sláturhúss hanga að hluta til saman við nýtt tíu þúsund tonna fiskeldi í Seyðisfirði. Þar ríkir töluverð óánægja með þau áform eins og Austurfrétt hefur greint frá og lesa má um hér. Lét Hildur í lokin bóka að hver byggðakjarni innan Múlaþings fengi notið sérstöðu sinnar. Þeir Helgi Hlynur Ásgrímsson, VG, og Þröstur Jónsson, Miðflokki, settu báðir spurningamerki við að blanda saman fiskeldisáformum og uppbyggingu á Djúpavogi.

Aðspurður um stöðu nýs sláturhúss ef ekki verður af áformuðu fiskeldi í Seyðisfirði segist Jens Garðar bjartsýnn á að ná til þeirra sem mótfallnir eru eldi í Seyðisfirði og áformað er þegar að hitta og ræða við fólkið í bænum frekar á næstu vikum.

„En auðvitað mun það hafa áhrif ef þau áform, einhverra hluta vegna, ganga ekki eftir. Hvort við seinkum þá framkvæmdum eða breytum áætlunum verður bara að koma í ljós þegar og ef sá tími kemur.“

Aðrir ánægðir með uppbyggingaráform

Aðrir sem til máls tóku á fundi sveitarstjórnar vegna málsins lýstu yfir mikilli ánægju með fyrirhugaða uppbyggingu á hafnarsvæði Djúpavogs. Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, sagðist himinlifandi með glæsilega kassaverksmiðju Búlandstinds á Djúpavogi og sagði kraftinn sem fyrirtækið færði bænum ótrúlegan. „Krafturinn í þessu fyrirtæki er ótrúlegur og ég ætla bara að hæla þeim og hvetja okkur til að standa ekki í vegi fyrir þessu öfluga fyrirtæki og þessari öflugu atvinnuuppbyggingu sem er þarna.“

Gera má ráð fyrir að breyting á aðalskipulagi Djúpavogs og í kjölfarið hönnun og bygging sláturhússins geti í heild tekið fjögur til fimm ár.

Mynd: Fiskeldi finnst nú víðast hvar í fjörðum Austurlands en ekki enn í Seyðisfirði. Mynd Laxar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.