Skip to main content

Fiskeldissjóður styrkir fráveituframkvæmdir í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. maí 2023 10:39Uppfært 11. maí 2023 10:50

Fjarðabyggð hefur fengið alls tæplega 47 milljóna króna styrk úr Fiskeldissjóði til dýpkunar hafnarinnar á Eskifirði og fráveitu í sex byggðakjörnum. Umsóknum Múlaþings var hafnað.


Ríkið innheimtir gjald af fiskeldisfyrirtækjum sem nemur ákveðnu hlutfalli af markaðsvirði þess fisks sem er slátrað. Það rennur í fiskeldissjóð og úr honum er úthlutað til þeirra sveitarfélaga þar sem eldið er stundað.

Styrkirnir eru ætlaðir til að styrkja innviði, til dæmis þá sem þarf til að sinna sjókvíaeldinu en einnig bæta umhverfi, efla atvinnulíf eða þjónustu eða mannlíf eða menningu og þar með samfélagið á viðkomandi stað.

Að þessu sinni var úthlutað 247,7 milljónum króna til tólf verkefna í sjö sveitarfélögum. Alls bárust 24 gildar umsóknir upp á 758,5 milljónir frá átta sveitarfélögum. Múlaþing er sveitarfélagið sem ekkert fær að þessu sinni.

Fjarðabyggð fær tæpar 47 milljónir í sinn hlut. Annars vegar 24,5 milljónir í dýpkun hafnarinnar á Eskifirði, hins vegar 22,45 milljónir í að styrkja fráveitu í sex byggðakjörnum.

Þriggja manna stjórn fiskeldissjóðs heldur utan um úthlutanirnar. Hún hefur fundað tólf sinnum á þessu ári. Samkvæmt fundargerðum snérust fundirnir flestir í að fara yfir umsóknirnar þar sem fulltrúar sveitarfélaganna komu til að gera grein fyrir þeim.

Samkvæmt ársskýrslu fyrir árið 2021 var kostnaður við utanumhald tvær milljónir króna, þar af 1,9 milljón í starfsmannakostnað. Hafa ber í huga að það var fyrsta starfsárið og því nokkur vinna við að móta reglur utan um úthlutunina.