Fjarðabyggð hyggst selja öll tjaldsvæði sveitarfélagsins
Ákveðið hefur verið að öll sjö tjaldsvæðin í Fjarðabyggð verði sett í söluferli frá næsta hausti.
Sveitarfélagið á og rekur tjaldsvæði á einum sjö mismunandi stöðum og verður svo áfram þetta sumarið áður en söluferli hefst formlega með haustinu að sögn Stefáns Þórs Eysteinssonar, formanns bæjarráðs Fjarðabyggðar.
Þessi ákvörðun á sér nokkurn aðdraganda því ákveðið var að breyta rekstrarformi tjaldsvæðanna til frambúðar á fundi bæjarráðs snemma í vetur. Kom þar tvennt til greina: að vinna verðmat á svæðunum og hefja söluferli eða að sveitarfélagið sjálft tæki alfarið yfir rekstur hvers svæðis fyrir sig.
Með sölu tjaldsvæðanna sjö segir Stefán Þór að slíkt losi sveitarfélagið undan öllum rekstri svæðanna og létti þar með á fjárhagslegum skuldbindingum þeirra vegna. Þær skuldbindingar gætu verið töluverðar þar sem endurnýja þarf ýmislegt á mörgum svæðunum í ljósi þess að tjaldvagnar, felli- eða hjólhýsi hafa að miklu leyti leyst hefðbundin tjöld af hólmi á tjaldsvæðum landsins. Það kallar á töluverðan kostnað vegna rafmagnstenginga og endurnýjunar svæðanna á næstu árum.
„Ég á ekki von á að við förum í söluna fyrr en að þessu sumri loknu,“ segir Stefan Þór við Austurfrétt. „Spurningin sem við veltum helst fyrir okkur í þessu var hvort ekki væri eðlilegra að þeir sem þegar eru að reka einhvers konar gistiþjónustu á þessum stöðum væru með tjaldsvæðin á sínu forræði en vel gæti hentað að samtvinna slíkan rekstur. Svo var líka spurning þessu tengt hvort að sveitarfélagið ætti að vera í beinni samkeppni við aðra gistiaðila á þeim svæðum þar sem tjaldsvæði séu til staðar. Við mátum það óeðlilegt.“
Svæðin verða auglýst opinberlega að sumri loknu en hér er um að ræða tjaldsvæðin á Breiðdalsvík og í Reyðar-, Eski-, Norð-, Mjóa-, Fáskrúðs- og Stöðvarfirði.
Tjaldsvæði Fáskrúðsfirðinga við Óseyri er eitt þeirra sem bæta þarf vegna breyttra krafna ferðafólks í náinni framtíð. Það verður að líkindum á kostnað nýrra eigenda frá næsta hausti. Mynd Fjarðabyggð.