Skip to main content

Fjármagn vantar til að tryggja öryggi vegna eldsvoða í jarðgöngum á Íslandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2025 12:18Uppfært 18. júl 2025 12:18

Innviðaráðherra telur ástæðu til að yfirfara viðbragðsgetu slökkviliða og öryggismál í jarðgöngum á Íslandi eftir eldsvoða við Norðfjarðargöng í síðasta mánuði. Vegagerðinni er ætlað að styrkja slökkvilið til að hafa tiltækan nauðsynlegan búnað. Stofnunina vantar einnig fjármagn til að tryggja viðbúnað í Fáskrúðsfjarðargöngum sem fengu athugasemd í úttekt árið 2021.


Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, spurði Eyjólf Ármannsson, innviðaráðherra, út í eldvarnir í jarðgöngum í kjölfar þess að vegmálunarbíll brann rétt hjá Norðfjarðargöngum fyrir sléttum mánuði. Göngunum var lokað á meðan bíllinn brann.

Mildi þótti að bíllinn brann utan ganganna, bæði vegna þeirra efna og eldsmatar sem í honum var, en einkum vegna þess að vindátt var óhagstæð þannig að vart hefði verið hægt að komast að honum nema úr einni átt.

Vegagerðin á að kosta búnað slökkviliða


Innviðaráðuneytið úrskurðaði í fyrra að eiganda jarðganga, það er Vegagerðinni, beri að kosta tæki fyrir slökkvilið til að geta brugðist við eldi í göngum. Úrskurðurinn féll eftir kvörtun Fjallabyggðar en slökkviliðið þar ber ábyrgð á þrennum göngum. Þau eru tvenn í Fjarðabyggð og 12 alls í landinu.

Ingibjörg sagði að með úrskurðinum væri kostnaðarskiptingin orðin skýr og spurði Eyjólf hvort hann ætlaði að beita sér fyrir að slökkvilið í landinu hefðu fjármagn til að tryggja viðbragð í jarðgöngum. Hún lagði einnig fram formlega fyrirspurn um hvernig Vegagerðin ætlaði að bregðast við úrskurðinum, um tímasettar áætlanir um afhendingu búnaðar til slökkviliða og aðrar aðgerðir vegna eldsvoða í jarðgöngum. Fyrirspurninni var ekki svarað áður en Alþingi fór í sumarfrí.

En í umræðunum svaraði Eyjólfur að hann hefði rætt málið við Vegagerðina, meðal annars eftir að rúta brann við Vestfjarðagöng í fyrrahaust. Hann sagðist einnig vonast til að Vegagerðin væri að vinna í samræmdum aðgerðum og leiðbeiningum við eldsvoða í jarðgöngum, meðal annars um æfingar en einnig um takmörkun á fjölda hópferðabíla á sama tíma í göngum. Hann hét því að beita sér fyrir því að búnaðurinn yrði tryggður. „Þetta ætti að vera okkur ákveðinn fyrirboði um að það gætu orðið enn þá hættulegri slys í framtíðinni,“ sagði hann um atvikin tvö.

Árið 2018 styrkti Vegagerðin Slökkvilið Fjarðabyggðar til að kaupa slökkvibíl sem útbúinn var öflugum búnaði, sérstaklega til að takast á við eldsvoða í jarðgöngum.

Telja öryggi vegfarenda í Fáskrúðsfjarðargöngum ekki ógnað


Eyjólfur kom einnig inn á skýrslu sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, skilaði í byrjun árs 2022, eftir úttekt árið á undan, um öryggismál í jarðgöngum. Þar voru gerðar athugasemdir við fern göng, þar á meðal Fáskrúðsfjarðargöng og undir Almannaskarð. Í Fáskrúðsfjarðargöngunum var fundið að því að þar væri of langt á milli brunahana. Slökkvilið Fjarðabyggðar lýsti einnig áhyggjum af skorti á öryggismyndavélum í kjölfar æfinvar vorið 2023.

Um það mál sagði Eyjólfur að hann vissi til þess að ESA væri með það hjá sér, það væri ekki forgangsmál en stofnunin hefði engu að síður vakið athygli íslenskra stjórnvalda á öryggismálum í Fáskrúðsfjarðargöngum.

Í svari frá Vegagerðinni við fyrirspurn Austurfréttar um stöðuna í göngunum segir að síðustu ár hafi uppfærsla öryggismála í göngunum verið undirbúin og hönnuð en ekki liggi enn fyrir fjármögnun til verksins. Það verði boðið út þegar fjármagn fáist. Þrátt fyrir athugasemdir ESA sé það mat Vegagerðarinnar að öryggi ganganna sé ekki ábótavant. Búið er að laga þau atriði sem athugasemdir voru gerðar við í Almannaskarðsgöngunum.

Þá segir í svarinu að markvisst sé unnið að því að uppfæra áhættumat fyrir jarðgöng landsins og yfirfara og endurnýja viðbragðsáætlanir. Æfingar séu haldnar reglulega með slökkviliðum landsins. Áhættumatið sé síðan grundvöllur þess hvort bæta þurfi búnað slökkviliða.

Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar