Skip to main content

Fjarskipti: Sama bilun myndi ekki hafa jafn mikil áhrif

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. júl 2025 13:40Uppfært 28. júl 2025 13:41

Míla hefur breytt búnaði í stöð sinni á Reyðarfirði sem bilaði fyrir mánuði með þeim afleiðingum að fjarskiptasamband datt að miklu leyti út á Eskifirði og Norðfirði. Með því á að vera komið í veg fyrir að sama bilun hafi jafn mikil áhrif. Bæjarstjóri segir heppilegt að bilunin varð seinni part sunnudags.


Sunnudaginn 22. júní kom upp bilun sem varð til þess að samband Mílu við Eskifjörð og Neskaupstað datt út. Þar með datt út bæði gagna- og símasamband Símans en viðskiptavinir Sýnar voru áfram í sambandi. Sambandsleysið stóð í tæpa tvo tíma, en ræsa þurfti út starfsmann til að endurræsa búnaðinn.

Atli Stefán Yngvason, talsmaður Mílu, segir að bæði aðal- og varabúnaður á Reyðarfirði hafi farið út vegna bilunar í stýrispjaldi. Búið sé að aðskilja búnaðinn betur þannig að sama bilun eigi ekki framar að valda sama sambandsleysi.

Gott að sambandið fór á sunnudegi


Eftir atburðinn fól bæjarráð Fjarðabyggðar Jónu Árnýju Þórðardóttur, bæjarstjóra, að fylgja eftir úrbótum vegna sambandsleysis á vettvangi almannavarnanefndar Austurlands. „Það var heppilegt að þetta var seinni part sunnudags. Það var röskun í Kjörbúðinni, bensínstöðinni og fleiri stöðum en sjúkrahúsið og slökkvistöðin voru inni. Okkar viðbragðsaðilar reyndu að tengja sig eftir öðrum leiðum.

Fjarskiptasamband er ein af grunnstoðunum í öllu okkar viðbragðskerfi. Þarna datt eitt fyrirtæki út en það hefði verið mjög alvarlegt ef allt samband á þessum stöðum hefði farið út. Þess vegna þarf að taka samtöl um þetta,“ segir Jóna Árný.

Skoða styrkingu varasambands


Meðal þess sem Fjarðabyggð og viðbragsaðilar á Austurlandi fóru yfir með Mílu í kjölfarið var hvernig fyrirtækið léti bæði hagsmunaaðila á svæðinu og almenning vita af bilun. Fundað var með Neyðarlínu og almannavörnum og eru Atli og Jóna sammála um að hann hafi verið gagnlegur. Míla hefur breytt verklagi sínu í kjölfarið.

Atli bætir við að Míla sé ávallt að leita leiða til að bæta rekstraröryggi og hafi í hyggju að skoða fleiri leiðir á varasambandi fyrir staðina. Þar eru ýmsar leiðir færar, en á Skagaströnd nýtir fyrirtækið til dæmis samband við lágsporbrautargervihnött.