Skip to main content

Fjölbreytt flóra í menningarstyrkjum Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. jan 2022 08:36Uppfært 28. jan 2022 15:07

Alls bárust umsóknir um menningarstyrki Múlaþings frá 25 einstaklingum og stofnunum vegna 29 verkefna. „Múlaþing er ríkt af drífandi og skapandi fólki sem endurspeglast í þeim umsóknum sem bárust,“ segir á vefsíðu Múlaþings.

Sótt var um styrki fyrir rúmlega 18 milljónir kr. Veittir styrkir vegna verkefna voru alls tæplega 8,3 milljónir kr. 

Af þeim 25 sem sóttu um eru 11 skráðir á Egilsstaði, 11 á Seyðisfjörð og þrír utan Múlaþings. Engar umsóknir bárust frá Borgarfirði eystri eða Djúpavogi. Ein umsókn var dregin til baka og einni var hafnað.  Hæstu einstöku styrkir eru 500.000 kr. 

Byggðaráð Múlaþings auglýsti í desember 2021 til umsóknar styrki til menningarstarfs á árinu 2022. Um var að ræða fyrri úthlutun menningarstyrkja Múlaþings vegna verkefna á árinu 2022, en auglýst verður eftir umsóknum vegna seinni úthlutunar í ágúst.

„Múlaþing er ríkt af drífandi og skapandi fólki sem endurspeglast í þeim umsóknum sem bárust. Verkefnin eru fjölbreytt og spanna m.a. bókaútgáfur, tónleika, sviðslistaverk og kvikmyndaframleiðslu sem verða unnin innan Múlaþings og á Austurlandi,“ segir á vefsíðunni.

Sem fyrr segir námu hæstu styrkirnir 500.000 kr. Og var sú upphæð veitt til fimm verkefna. Þau sem fengu hæsta styrkinn voru Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Ra Elisabeth Tack, Sigríður Matthíasdóttir, Skaftfell og Sláturhúsið.

Verkefni Ásgríms er 10 ára afmæli Tónleikamaraþonsins.  Næsta sumar verða 10 ár liðin frá því að Jónas Sigurðsson og heimamenn stóðu fyrir 18 tónleikum á 20 dögum á Borgarfirði eystri, kölluðum „Tónleikamaraþonið“. Þeirra verður minnst með vikulangri tónleikaröð í sumar þar sem tónlistarfólk af svæðinu ásamt þekktum tónlistarmönnum koma fram. 

Verkefni Ra Elisabeth Tack  er alþjóðleg gestavinnustofa í Heima á Seyðisfirði fyrir sex listamenn og aktívista úr LGBTQIA+. Hvatt er til samvinnu listamanna og almennings á svæðinu. Afraksturinn verður sýndur í Heima og á Seyðisfirði. 

Verkefni Sigríðar Matthíasdóttur er „Munnleg og sjónræn saga“. Viðtöl við Seyðfirðinga.  Söfnun munnlegra heimilda um sögu Seyðisfjarðar. Verkefnið er hluti af sex þátta heimildamyndaröð um sögu Seyðisfjarðar. 
 
Verkefni Skaftfells er 16mm smiðja. Markmið verkefnisins er að kynna fyrir ungmennum í Múlaþingi 16mm kvikmyndagerð og gefa þeim tækifæri til að búa til stuttmyndir sem þau framkalla sjálf. Þau fá möguleika á að taka þátt í bæði skapandi og tæknilega þætti kvikmyndagerðar og upplifa hvernig þessir þættir hafa áhrif á hvorn annan. 

Verkefni Sláturhússins eru tvö fræðsluverkefni innan sviðslista; Dagdraumar: Dansverk fyrir börn frá tveggja ára aldri. Börnin eru ekki einungis áhorfendur heldur fá að læra og túlka með eigin hreyfingum og upplifun. Góðan daginn faggi! Sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur ætluð fyrir unglinga á aldrinum 14 – 17 ára. Verkefnin eru hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.