Forsætisráðherra segir reynt að flýta fyrir varnargörðum í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. apr 2023 10:01 • Uppfært 27. apr 2023 10:02
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ríkið vilja gera það sem hægt er til að hraða framkvæmdum við fjórðu og síðustu snjóflóðavarnagarðana ofan Neskaupstaðar. Hún segir það hafa verið sláandi að koma á vettvang eftir flóðin í lok mars.
Mánudaginn 27. mars féll snjóflóð á fjölbýlishús við Starmýri. Fleiri flóð féllu dagana á eftir en strönduðu á varnarmannvirkjum. Fleiri hundruð íbúa þurftu að rýma hús sín í öryggisskyni og fengu þeir síðustu ekki að fara heim fyrr en laugardaginn 1. apríl.
Sunnudaginn 2. apríl kom Katrín austur ásamt Guðlaugu Þór Þórðarsyni, umhverfisráðherra, en undir hans embætti heyra varnir gegn ofanflóðum.
„Það var afar áhrifaríkt að koma til Norðfjarðar. Að koma inn í blokkirnar og sjá til dæmis stigahandriðið sem hafði sligast undan flóðinu var sláandi,“ sagði Katrín í samtali við Austurfrétt þegar hún kom til Egilsstaða til opins fundar í gær.
Byggðin í Neskaupstað er að miklu leyti varin með snjóflóðavarnargörðum en ekki ysti hlutinn þar sem flóðið féll á húsinu. Í byrjun mars var hönnun að varnargörðum þar kynnt. Eftir flóðin hefur þrýstingur á að farið verið í framkvæmdir sem fyrst aukist verulega.
Fjarðabyggð vinnur nú að deiliskipulagsgerð sem reiknað er með að ljúki í haust. Framkvæmdin sjálf og útboð hennar er þó enn ótímasett. „Það er skýrt ákall um að hraða framkvæmdinni en það eru fleiri verkefni í gangi og erfitt að gera allt í einu. Það liggur þó fyrir að framkvæmdin er framundan og við gerðum það sem hægt er til að hraða henni.“