Skip to main content

Freista þess að finna meira vatn í Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. des 2021 09:27Uppfært 28. des 2021 09:32

„Það á að reyna að tryggja meira öryggi í vatnsmálum Vopnfirðinga með þessari aðgerð,“ segir Baldur Kjartansson, fjármálastjóri Vopnafjarðarhrepps.

Dýrasta framkvæmd Vopnafjarðarhrepps á næsta ári verður borun nýrrar holu eftir meira vatni fyrir bæjarbúa en sú framkvæmd mun kosta um fimmtán milljónir króna samkvæmt áætlun. Alls gerir bærinn ráð fyrir 65 milljóna króna útgjöldum í framkvæmdir og viðhald á komandi ári.

Leita þarf aftur til síðasta sumars fyrir ástæðu þess að bærinn telur þörf á nýrri borholu en fádæma góð tíð yfir sumarmánuðina með tilheyrandi hitum varð þess valdandi að mjög gekk á vatnsbirgðir. Svo mjög reyndar að hefja þurfti dælingu úr gömlu vatnsbóli í viðbót við aðalvatnsból bæjarsins þegar verst lét.

Við erum með vatnsból í Svínabakkafjalli sem alla jafna dugar fyrir bæinn, en eins og tíðin var í sumar þá þurfti einnig að dæla vatni úr gömlu vatnsbóli í Vesturárdal þegar að notkunin var sem mest. Vatnsmagnið í þeim holum hefur farið minnkandi og því á að freista þess að finna meira vatn þar.