Stjórnendur Reisugils dæmdir í atvinnurekstrarbann
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. jún 2025 14:12 • Uppfært 26. jún 2025 09:46
Stjórnendur Reisugils, byggingaverktaka með skráð heimili á Fáskrúðsfirði, hafa verið dæmdir í þriggja ára atvinnurekstrarbann fyrir að hafa tekið fjármuni úr öðru félagi í eigin vasa og hvorki staðið skil á sköttum né bókhaldsgögnum. Reisugil sjálft hefur síðustu mánuði tapað þremur dómsmálum vegna ógreiddra reikninga.
Dómurinn um atvinnurekstrarbannið féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok apríl. Það var höfðað af skiptastjóri eldra félags þeirra, Gluggasmíði ehf., sem var úrskurðað gjaldþrota árið 2024.
Grjetar Andri Ríkarðsson og Guðrún Æsa Ingólfsdóttir stofnuðu Gluggasmíði ehf., árið 2020. Guðrún Æsa var skráður stofnandi en öll formleg ábyrgð á félaginu færðist á Grjetar árið 2023. Málsvörn þeirra byggðist að hluta til á því að hann hefði allan tímann séð um daglegan rekstur og ábyrgð.
Ekkert bókhald og engu skilað
Kröfur í þrotabú Gluggasmíði námu 20 milljónum. Stærstur hluti þeirra var frá Skattinum, 17,3 milljónir, vegna vangreiddra opinberra gjalda, meðal annars virðisaukaskatts. Í gögnum málsins kemur fram að Gluggasmíði hafi ekki haldið neitt skipulagt bókhald, aldrei skilað ársreikningum né nokkru sinni staðið skil á opinberum gjöldum. Félagið sendi nokkrum sinnum inn takmarkaðar virðisaukaskattsskýrslur. Þar var gerð grein fyrir veltu upp á 3,3 milljónir en gögn frá skiptastjóra sýna að hún var alls 12,4 milljónir.
Engir launþegar voru hjá fyrirtækinu en parið skráð sem verktakar. Þau tóku á stuttum starfstíma félagsins samanlagt út 18,4 milljónir af reikningum félagsins með ýmsum hætti án þess að hægt hafi verið að gera grein fyrir ráðstöfun fjárins. Féð var meðal annars tekið út sem reiðufé í hraðbanka, með millifærslum eða úttektum hjá verslunum sem áttu lítið skylt við reksturinn.
Sviknir viðskiptavinir
Í greinargerð skiptastjóra til dómsins kemur fram að fyrir liggi tveir úrskurðir kærunefndar vöru- og þjónustumála þar sem fyrirtækið er dæmt til að endurgreiða viðskiptavinum staðfestingargjald sem greitt var vegna vinnu sem samið var um. Verkin voru hvorki unnin né bæturnar greiddar. Vísað er til þess að Facebook-hópur hafi verið stofnaður af fólki sem sat eftir með sárt ennið eftir loforð um viðskipti við félagið.
Fyrir dómi báru Grjetar Andri og Guðrún Æsa að þau hefðu ekki haft ásetning um brot heldur gert mistök við að koma félagi í rekstur. Þau gerðu einnig athugasemd við að ákvæði um atvinnurekstrarbann, sem tóku gildi árið 2002, næðu yfir brot framin áður. Grjetar Andri gaf skýrslu hjá skiptastjóra þar sem hann sagði að Gluggasmíði hefði greitt 200.000 á mánuði fyrir húsnæði og að úttektir í verslunum eða hraðbanka hefði í einhverjum tilfellum verið greiðslur til kranamanns. Hann gat lagt fram gögn fyrir hvorugu.
Fyrirtækið tæmt kerfisbundið
Sækjandi fór fram á þriggja ára atvinnurekstrarbann, sem er lágmarkstími ákvæðis sem sett var í lög um gjaldþrot árið 2022. Því var ætlað að sporna gegn kennitöluflakki en þar segir að hægt sé að beita ákvæðinu hafi stjórnendur ítrekað sýnt að þeir séu ófærir um að stjórna félagi eða fara með prókúru. Skiptastjórinn sagði þau ítrekað hafa farið á svig við reglur um meðferð fjármuna einkahlutafélaga.
Í niðurstöðu dómsins segir að þau hafi ekki getað gefið neinar skýringar á úttektum né um hvað fjármunina varð sem fóru frá félaginu. Ekkert styðji fullyrðingar um að þeir hafi verið nýttir í þágu þess. Þvert á móti verði ekki annað ráðið en þau hafi kerfisbundið tæmt Gluggasmíði ehf., frá stofnun með tilheyrandi tjóni fyrir kröfuhafa og samfélagið.
Opinber gögn hafi verið í vanskilum frá upphafi og þau ekki orðið við tilmælum skiptastjóra um að afhenda honum bókhaldið. Engar tilraunir hafi verið gerðar til að semja við Skattinn eða aðra kröfuhafa til að draga úr skaðanum. Gildistími ákvæðisins hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í fyrra og lögunum sé sannarlega ætlað að ná til allra stjórnenda fyrirtækja, líka skuggastjórnenda. Auk þriggja ára atvinnurekstrarbanns voru Grjetar Andri og Guðrún Æsa dæmd til að greiða 425 þúsund krónur hvort í ríkissjóð.
Reisugil tapað þremur dómsmálum
Þau eru líka skráðir forsvarsmenn Reisugils ehf., sem er með heimilisfesti á Fáskrúðsfirði. Það félag bar áður annað heiti. Miðað við innsenda ársreikninga var nafninu breytt árið 2016 en fram til 2022 eru reikningarnir flestir á núlli. Gögn um breytingar á félaginu eru frá því ári. Síðasta ársreikningi var skilað árið 2022. Reisugil hefur frá því í desember tapað þremur dómsmálum fyrir Héraðsdómi Austurlands.
Í desember var félagið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni vangoldin laun en AFL Starfsgreinafélag höfðaði málið fyrir hönd hans. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var farið fram á gjaldþrotaskipti Reisugils fyrr í þessum mánuði þar sem félagið hafði ekki greitt þau laun sem það var dæmt til að borga.
Í því dómsmáli komu fram stef sem eru kunnugleg af hálfu Reisugils: ásökunum er neitað, í greinargerð eru boðuð frekari gögn sem eiga að styðja málstað þess. Þau berast hins vegar aldrei og ekki er mætt fyrir dóm.
Þannig er sagan í tveimur málum sem rekin voru samhliða fyrir dóminum og félagið tapaði í maí.. Bæði snérust um vinnubúðir úr gámum sem félagið ætlaði að koma upp á Fáskrúðsfirði. Annars vegar var um að ræða kröfu Fjarðabyggðar á greiðslu fyrir stöðuleyfi upp á 225 þúsund, hins vegar frá verktakafyrirtæki upp á 540 þúsund krónur fyrir malarpúða undir búðirnar. Í báðum málum kemur fram að ítrekaðar innheimtutilraunir hafi engan árangur borið. Reisugil var að auki dæmt til að greiða tæplega 700 þúsund krónur í málskostnað samanlagt.