Skip to main content

Gagnrýna að ekkert fjármagn sé eyrnamerkt íþróttamiðstöð Djúpavogs næstu árin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. ágú 2025 15:26Uppfært 13. ágú 2025 15:35

Heimastjórn Djúpavogs gagnrýnir í nýrri bókun sinni að í drögum að langtíma fjárfestingaráætlun Múlaþings árin 2025 til 2034 sé alls engin fjárfesting eyrnamerkt hvorki endurbótum né uppbyggingu á íþróttamiðstöð bæjarins.

Heimastjórnin lengi bent á þörfina á viðhaldi og frekari uppbyggingu miðstöðvarinnar sem er hjarta þorpsins í hugum margra íbúa og ekki unga fólksins hvað síst.

Eins og Austurfrétt greindi frá í maí tók heimafólk að hluta til málin í sínar eigin hendur síðastliðið vor við úthlutun styrkja úr samfélagssjóði en bæði Kvenfélagið Vaka auk Þorrablótsnefndar Djúpavogs lögðu einnig sín lóð á vigtina til hjálpar. Tókst þannig að safna tæpum tveimur milljónum króna til viðhalds og uppbyggingar miðstöðvarinnar en betur má ef duga skal enda miðstöðin komin til ára sinna.

Heimastjórnin vill ennfremur að við vinnu við langtíma fjárhagfestingaráætlun Múlaþings með haustinu verði gert ráð fyrir kostnaði við yfirbyggingu sparkvallar staðarins og ekki síður um bætta aðstöðu við Neistavöllinn. Við þann völl sé hvorki búningsaðstaða né geymslupláss.

Íþróttamiðstöðin á Djúpavogi þarfnast viðhalds og helst gott betur en það að mati heimastjórnar þorpsins en engir fjármunir eyrnamerktir slíku í langtíma fjárfestingaráætlun Múlaþings.