Skip to main content

Gátu ekki sent sýnin suður vegna óveðursins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jan 2022 15:57Uppfært 03. jan 2022 15:57

„Helsta ástæðan fyrir því að við felldum niður sýnatökur í dag var að við gátum ekki sent sýnin til greiningar sökum ófærðar og veðurs,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur mikil ófærð og óveður gert íbúum á Austurlandi og Austfjörðum lífið leitt í dag og um helgina. Hafa björgunarsveitir af þeim sökum oft þurft að flytja heilbrigðisstarfsfólk til starfa sinna á þessu tímabili.

„Við erum svo heppin að eiga góða að,“ segir Nína Hrönn um þessa flutninga og skortur á starfsfólki hafi ekki verið vandamál í ófærðinni.

„Önnur ástæða þess að við felldum niður sýnatökur var að við vildum ekki að fólk með einkenni væri að hætta sér út í þessa ófærð og lenda kannski í óhöppum. Það er betra að fólkið haldi sig heima og bíði eftir að sýnatökur hefjast að nýju,“ segir Nína en búið er að tilkynna um að stefnt verður á sýnatökur á morgun.

Hvað varðar að geta ekki komið sýnum í greiningu segir Nína Hrönn að sýnin sem tekin eru miðsvæðis á Austurlandi séu send til Reykjavíkur í greiningu. En sýnin á Vopnafirði séu yfirleitt send til Akureyrar.

„Hægt er að geyma sýnin í allt að þrjá sólarhringa en fólk vill fá að vita sína greiningu samdægurs í nær öllum tilvikum,“ segir Nína Hrönn.