Gauti gefur ekki kost á sér í vor

"Nú þegar nýtt ár er gengið í garð og styttist í sveitarstjórnarkosningar tel ég tímabært að upplýsa að ég hyggst ekki gefa kost á mér til setu í sveitarstjórn nú í vor," segir Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings í færslu á Facebook síðu sinni.

 

"Á þeim 12 árum sem liðin eru frá því ég fór fyrst að vinna að sveitarstjórnarmálum hef ég verið talsmaður sameiningar sveitarfélaga og vann í aðdraganda þess að Múlaþing varð til ásamt góðum hópi fólks að því verkefni. Á þessu fyrsta kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt sveitarstjórn Múlaþings í farsælu samstarfi þrátt fyrir erfiðar og að mörgu leyti fordæmalausar aðstæður. Nú þegar hyllir undir lok þess lít ég svo á að komið sé að ákveðnum kaflaskilum og þá sé rétt að stíga til hliðar og skapa þannig rými fyrir ný sjónarmið og áherslur," segir Gauti.

 

Hinn bendir síðan á að þetta sé hins vegar engin kveðjustund. Enn eru nokkrir mánuðir til kosninga og verkefnin næg. Sjálfstæðisflokkurinn í Múlaþingi hefur á að skipa fjölmörgum öflugum einstaklingum og í hans huga er enginn vafi að flokkurinn mun stilla upp sterkum lista í vor. Alltaf kemur maður í manns stað.

"Vil svo að lokum nota tækifærið og óska öllum gleðilegs nýs árs – og þótt fyrr hefði verið," segir Gauti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.