Skip to main content

Geðheilbrigðismál frá a til ö á yfirgripsmiklu málþingi í Valaskjálf

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. maí 2023 13:40Uppfært 03. maí 2023 13:49

Hvorki fleiri né færri en fimmtán einstaklingar halda erindi á stóru málþingi um geðheilbrigðismál sem haldið verður í Valaskjálf á Egilsstöðum á morgun. Skipuleggjandi hvetur alla, háa sem lága, til að fjölmenna.

Yfirskrift þingsins er Betri geðheilsa - Bætt samfélag en að því standa í sameiningu Tónleikafélag Austurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands auk félagsþjónustusviðs bæði Múlaþings og Fjarðabyggðar.

Allir eru velkomnir og því fleiri því betra að sögn Bjarna Þórs Haraldssonar, forsvarsmanns Tónleikafélags Austurlands, en hann og félagið hafa löngum látið geðheilbrigðismál sig skipta. Bjarni er einn skipuleggjenda og segir tilurð þingsins skemmtilega.

„Ég hef velt fyrir mér í nokkur ár að halda svona opið málþing því málefnið er mikilvægara en margra grunar og snertir okkur meira og minna öll að einhverju leyti. Svo gerist það í vetur að ég fyrir forvitnis sakir hef samband við Sigurlínu H. Kjartansdóttur, yfirsálfræðing hjá HSA, og í ljós kemur að hún er búin að hugsa það sama um tíma. Þannig komst þetta á koppinn og á morgun er stóri dagurinn.“

Þingið er tvískipt segir Bjarni. Fyrri hlutinn meira ætlaður fagfólki og stjórnendum en í þeim seinni er fjallað um mörg málefni er snerta almenning allan.

„Það væri gaman að sjá sem flesta því mörg erindi þarna eru bæði forvitnileg og lærdómsrík fyrir flest okkar held ég. Þarna verða pallborð í gangi og allir geta tekið þátt og komið með spurningar til fræðinganna og vonandi orðið einhvers vísari.“

Meðal þeirra sem taka þátt á morgun má nefna Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur frá embætti Landlæknis, Alma Sigurbjörnsdóttir og Bergey Stefánsdóttir kynna verkefnið Sprett í Fjarðabyggð, Linda Pehrson stjórnandi starfsendurhæfingar Austurlands fer yfir áhrif náttúrunnar á geðheilsu, formaður ADHD-samtakanna fjallar um hvernig lífið má bæta þrátt fyrir sjúkdóminn og Brynjar Halldórsson frá Landspítalanum kynnir hvernig valdefla má foreldra gagnvart kvíðaröskunum barna sinna. Er þá fátt eitt nefnt en dagskrána í heild má sjá hér.

Sannað þykir að útivera í náttúrunni sé einn sá þáttur sem hafi sterk jákvæð áhrif á geðheilsu fólks. Einn fyrirlesturinn á þinginu á morgun snertir þann þátt. Mynd GG