Skip to main content

Gera ráð fyrir 150 milljónum á ári af bílastæðagjöldunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2025 11:39Uppfært 04. jún 2025 11:43

Isavia innanlandsflugvellir ehf. gera ráð fyrir að innheimta 150 milljónir árlega af stöðugjöldum af bílastæðum við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík. Um 80% gjaldanna koma af síðastnefnda flugvellinum. Minna en tuttugu milljónir voru eftir af tekjum síðasta árs þegar stofnkostnaður hafði verið greiddur.


Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Gjaldtakan hófst 15. júní í fyrra og námu tekjurnar á árinu 78 milljónum króna. Af þeim komu 79% frá stæðunum í Reykjavík. Kostnaður við rekstur bílastæðanna var 24 milljónir króna. Utan við þá upphæð er launakostnaður starfsmanna Isavia innanlandsflugvalla á svæðunum.

Árlega er gert ráð fyrir að bílastæðagjöldin skili Isavia innanlandsflugvöllum 150 milljónum króna í tekjur. Á móti kemur að árlegur rekstrarkostnaður bílastæðanna er áætlaður 50 milljónir á ári, frá og með árinu í ár.

Sextíu milljóna byrjunarkostnaður


Fyrir utan það eru framkvæmdir við bílastæðin, sem var skýring Isavia innanlandsflugvalla á því af hverju var ráðist í gjaldheimtuna. Meðal annars var talað um að þau yrðu malbikuð. Í svarinu segir að tekjurnar eigi að nýtast til að „laga ásýnd og aðkomu og bæta öryggi á bílastæðunum.“ Þar segir ennfremur að framkvæmdirnar geti verið dýrar og því eðlilegt að ekki sé ráðist í þær á fyrsta ári. Isavia hefur til þessa ekki viljað svara spurningum um áform um uppbyggingu bílastæðanna.

Inni í kostnaðinum í fyrra er heldur ekki startkostnaðurinn sem nam um 60 milljónum króna. Hann fór meðal annars í myndavélar, lagnir og tölvutengingar. Það þýðir að þegar hann er talinn var tekjuafgangurinn 18 milljónir og reyndar sex milljóna tap ef rekstrarkostnaður stæðanna er reiknaður á móti gjöldunum.

Ingibjörg spurði einnig eftir kvörtunum vegna rangra rukkana eða kærur. Í svarinu segir að hver kvörtun hafi verið metin sérstaklega og endurgreitt ef hún var réttmæt. Ekki var haldið utan um fjölda þeirra. Fyrirspurn barst frá Persónuvernd um úrvinnslu gagna, sem var svarað og Neytendastofa benti á úrbætur í upplýsingagjöf sem farið var að. Lýst var efasemdum um lögmæti gjaldheimtunnar áður en henni var komið á.

Farþegum fækkað töluvert eftir Covid


Samkvæmt ársreikningi Isavia innanlandsflugvalla batnaði afkoma fyrirtækisins milli ára, 30 milljóna hagnaður var af rekstri í stað 150 milljóna taps. Handbært fé frá rekstri jókst úr 73 milljónum í 126. Eigið fé er enn neikvætt um 270 milljónir en var neikvætt um 300 milljónir árið 2023. Í skýringu í ársreikningnum kemur fram að félagið eigi engar fasteignir heldur sjái um rekstur og sé umráðaaðili fasteigna á innanlandsflugvöllum.

Ríkið er eini hluthafi félagsins sem er rekið samkvæmt þjónustusamningi við innviðaráðuneytið. Núverandi samningur rennur út í lok þessa árs og er unnið að nýjum fimm ára samningi. Vonast er til að fjármagn fáist þar í endurnýjun tækja og búnaðar. Þá er þörf á endurnýjun á aðflugsljósum sem fjármögnuð verður í gegnum nýja samgönguáætlun. Takmarkanir eru á flutningi fjármagns milli flugsvæða og utan þeirra, það er innan eða utan girðingar.

Í ársreikningnum kemur enn fremur fram að farþegum í innanlandsflugi hafi fækkað síðustu ár. Farþegafjöldi fyrir Covid-faraldurinn var um 800 þúsund á ári en var í fyrra tæp 695 þúsund. Búist er við að farþegafjöldinn í ár verði um 690 þúsund. Loftbrúin er talin hafa vegið eitthvað upp á móti fækkun farþega sem annars hefði orðið.

Bílastæðin mun minna notuð en áður


Bílastæðagjöldunum var mótmælt ákaft í aðdraganda þeirra í fyrra. Það leiddi meðal annars til þess að á Akureyri og Egilsstöðum var leyft að leggja án gjalds í 14 tíma. Fyrirtækið viðurkenndi að hafa þurft að breyta áætlun vegna þessa.

Þótt mótmælin hafi heldur hljóðnað hefur orðið sú breyting á bílastæðinu á Egilsstöðum að margfalt færri leggja bílum sínum þar en áður. Lítil virkni hefur verið í skutlhópi sem settur var upp á Facebook en flugfarþegar fá fjölskyldu og vini til að keyra sig á völlinn til að komast hjá því að borga gjaldið.