„Gríðarlega spennt fyrir hönd landsbyggðarinnar“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. feb 2022 16:10 • Uppfært 18. feb 2022 17:41
Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir mikil tækifæri fyrir Austfirðinga og ferðaþjónustu á svæðinu felast í beinu flugi milli Akureyrar og þriggja áfangastaða í Evrópu sem hefja á í sumar.
„Ég er gríðarlega spennt fyrir hönd landsbyggðarinnar að þarna hafi aðilar ákveðið að láta vaða í uppbyggingu á þessu félagi,“ segir Jóna Árný um fréttir um að fjárfestar á Akureyri hafi ákveðið að stofna flugfélagið Niceair utan um reglubundið flug milli Akureyrar og Evrópu.
„Við sjáum mikil tækifæri í þessu, bæði fyrir íbúa svæðisins og ferðaþjónustuna. Við höfum jafnan bent á að gestir sem koma hingað til lands til þess að fara til dæmis hringinn í kringum landið geta allt eins lent á Norður- eða Austurlandi.
Tilkoma Niceair höfðar án efa til ferðamanna sem langar að fara á svæði eins og Austurland, Norðurland og Vestfirði. Austurland og Norðurland hafa verið í samstarfi árum saman um markaðssetningu til ferðafólks og um möguleikana á beinu flugi.
Við væntum þess að það samstarf verði áfram gott og ánægjulegt í þessum efnum að sjá í frétt Austurfréttar væntingar forsvarsmanna Niceair til flugs til og frá Egilsstaðaflugvelli.“
Austurbrú á enga beina aðkomu að flugfélaginu en Jóna Árný segir hugmyndir um stofnun þess hafa verið ræddar um þó nokkurn tíma. Ánægjulegt sé að þær séu að verða að veruleika.
„Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú hafa unnið saman í eflingu flugs inn á millilandaflugvellina. Við vissum af þessum fyrirætlunum og höfum rætt saman, en nú þegar þetta er komið í loftið skapast grundvöllur fyrir frekari samvinnu.
Það er ánægjulegt að þetta sé tilkynnt núna því við hjá Austurbrú og Markaðsstofu Norðurlands hittumst á fundi, sem skipulagður var fyrir nokkru, hér eystra á mánudaginn ásamt fulltrúum þeirra sem hafa unnið með okkur í markaðssetningu flugvallanna,“ segir Jóna Árný.
Hún telur mikinn áhuga vera að austan á flugi Niceair, sem stefnir til Bretlands, Danmerkur og Spánar. „Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi hafa sýnt áhuga eftir að fréttirnar bárust. Við erum að ná utan um hann og koma í farveg til að vinna áfram.“