Skip to main content

Grunnskólinn á Eskifirði áfram lokaður og grunur um smit á Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2021 16:35Uppfært 07. des 2021 16:51

Gert er ráð fyrir að úrvinnsla úr sýnatökum 180 nemenda og kennara grunnskólans á Eskifirði vegna smits sem þar greindist í gær ljúki ekki fyrr en í fyrramálið. Af þeim sökum verður skólinn því að öllum líkindum lokaður á morgun. Þá leikur grunur á nýju smiti í leikskólanum á Reyðarfirði

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn á Austurlandi en þar kemur ennfremur fram að bæði aðgerðastjórn og yfirvöld skólamála í Fjarðabyggð munu senda allar upplýsingar um niðurstöður og hvort eitthvað breytist varðandi skólahald fyrir hádegið á morgun.

Leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði var lokað um hádegisbil í dag vegna gruns um smit og fóru fram sýnatökur í kjölfarið. Niðurstaða þeirra væntanleg með kvöldinu.

Foreldrar og forráðamenn barna á leikskólanum eru hvattir til að fara með börn sín í sýnatöku milli klukkan 09:00 og 10:30 í fyrramálið á Reyðarfirði. Breytist forsendur og óhætt þykir að opna skólann að nýju mun það gert um hádegisbil á morgun. Tilkynning mun send í fyrramálið um niðurstöðu hvað lokun varðar.

Þá er og grunur um smit í grunnskóla Reyðarfjarðar en það talið einangrað. Nemendur í fjórða bekk skólans og hluti af nemendum í þriðja bekk er heima vegna þessa og bíða niðurstöðu sýnatöku. Hún ætti að liggja fyrir á morgun.