Grunnskólinn á Eskifirði verði tilbúinn til kennslu við skólabyrjun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. jún 2023 15:41 • Uppfært 23. jún 2023 15:53
Stefnt er að því að vinna við viðgerðir á húsnæði grunnskóla Eskifjarðar gangi það hratt að hægt verði að hefja skólastarf þar með hefðbundnum hætti eftir miðjan ágúst. Íþróttakennsla er þó undanskilin því beðið verður með lagfæringar á íþróttahúsinu.
Framkvæmdir eru hafnar við skólahúsnæðið og byrjað að rífa af gólfefni á jarðhæðinni allri sem og völdum svæðum á annarri og þriðju hæð.
„Við áætlum að skólastarf geti byrjað með hefðbundnum hætti 20. ágúst. Helst er spurning um svæðið sem tónlistarskólinn hefur nýtt,“ segir Svanur Freyr Árnason, sviðsstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs Fjarðabyggðar.
Ákveðnum rýmum í skólanum var lokað í byrjun árs eftir að mygla var staðfest þar og síðan fleiri stofum, þar með talið jarðhæðinni allri, í apríl eftir frekari rannsóknir. Þar fannst þó fyrst og fremst raki en ekki mygla. Athuganir síðan benda til þess að vandinn sé minni en óttast var. „Það fannst mest á annarri hæðinni en það sem kom í ljós á annarri og þriðju hæð var óverulegt,“ útskýrir Svanur.
Farið er eftir ráðleggingum verkfræðistofunnar Eflu við framkvæmdirnar en hún hefur annast rannsóknir og ráðgjöf fyrir sveitarfélagið í ferlinu. Nýtt gólfefni veðrur lagt á jarðhæðina þegar búið verður að slípa hana til eins og þarf. Einnig veðrur skipt um þak á vesturhluta hússins, yfir starfssvæði kennara og samkomusal. Drenlögum í kringum skólann verður breytt til að leiða vatn frá honum. Í október verður sett á ný klæðning og skipt um glugga.
Áætlaður kostnaður við vinnuna er 90 milljónir króna. Svanur segir að verktakar eigi að vera tryggðir í öll verk en þau eru nokkuð fjölbreytt og því allmargir sem koma að vinnunni.
Ekkert verður gert fyrir íþróttahúsið því beðið er eftir frekari ákvörðunum um framtíð þess eða íþróttaaðstöðu á Eskifirði. Því var lokað í byrjun árs. Börnum frá Eskifirði verður keyrt á Reyðarfjörð og kenndar íþróttir þar að sinni.