Orkumálinn 2024

Grunur um blóðþorra í eldi Laxa í Reyðarfirði

Veira sem valdið getur sjúkdóminum blóðþorra í laxi (ISA) hefur greinst í eldisfiski úr sjókví Laxa fiskeldis við Gripalda í Reyðarfirði. Stöðin hefur verið einangruð og dreifingarbann sett á fisk úr henni meðan nánari staðfestingar er beðið. Sjúkdómsvaldandi afbrigði ISA veirunnar hefur ekki áður greinst í eldislaxi hérlendis.

Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að ISA tilheyri inflúensustofu, líkt og finnist í spendýrum og fuglum og sé stundum nefnd laxaflensa.

Veiran skaðlaus mannfólki

Þekkt eru tvö afbrigði veirunnar. Annað er góðkynja og veldur hvorki sjúkdómi né tjóni meðan hitt framkallar misalvarlegar sýkingar og dauða. Góðkynja afbrigðið er útbreitt og jafnvel talið að það finnist alls staðar í umhverfi laxa, bæði hjá villtum laxi og eldislaxi. Það hefur fundist hérlendis. Klínísk einkenni hafa þó reyndar aldrei verið staðfest í villtum laxi, jafnvel þótt meinvirka gerðin hafi verið einangruð úr slíkum fiski.

Vísindafólk er sammála um að afbrigðið sem veldur veikindum verði til við stökkbreytingar á meinlausa afbrigðinu. Árleg áhætta sýkingar með stökkbreyttu afbrigði hefur verið reiknuð út allt að 0,7% fyrir dæmigert sjókvíaeldi, sem telst mjög lítil áhætta.

Blóðþorri var fyrst staðfestur í Noregi árið 1984 en hefur reglulega komið upp í sjókvíaeldi, síðast í Færeyjum 2016/17. Sýkingin þá kom upp í stakri kví en allur annar fiskur í eldinu reyndist heilbrigður og var slátrað til manneldis. Veiran er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum.

Aðeins ummerki í einni kví

ISA veiran á Gripalda uppgötvaðist við krufningu og sýnatöku í kjölfar vaxandi óútskýrðs dauða í einni kvínni. Ákveði hefur verið að aflífa aðra fiska í kvínni við fyrsta tækifæri og farga úrgangi á öruggan hátt.

Lax sem alinn er í öðrum kvíum á eldissvæðinu virkar heilbrigður, vex vel og fóðrast eðlilega. Fiskur í nágrannakvíum verður settur undir hert eftirlit og skimanir af öryggisástæðum.

Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum vinnur nú að nánari staðfestingu og skilgreiningu á arfgerð veirunnar. Veirusýni verða send til Þýskalands til sérstakrar raðgreiningar, en einnig verður unnið í samvinnu við rannsóknastofu Evrópusambandsins í veirusjúkdómum lagardýra í Danmörku.

„Greining veirunnar nú ítrekar mikilvægi vöktunar og smitvarna til að viðhalda góðri sjúkdómastöðu hérlendis og fyrirbyggja að sjúkdómur á borð við blóðþorra komi upp og nái fótfestu í eldi,“ segir í tilkynningunni. Matvælastofnun hefur í varúðarskyni sett dreifingarbann á starfsstöðina við Gripalda. Það gildir þar til slátrað hefur verið úr sjókvíunum og svæðið sett í hvíld.

Í tilkynningu sem Laxar sendu frá sér á sama tíma og Matvælastofnun kemur fram að búið sé að einangra stöðina og unnið sé að því að taka út allan fisk sem sé í umræddri kví. Allar aðgerðir séu unnar í nánu samstarfi og samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.