Skip to main content

Guðsþjónustum að mestu aflýst vegna Covid

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. des 2021 11:27Uppfært 22. des 2021 12:55

„Þetta eru hræðileg vonbrigði auðvitað en við töldum ekki fært að hvetja fólk til kirkju og þurfa svo mögulega að vísa fólki frá,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur, en flestum guðsþjónustum hefur verið aflýst um hátíðina.

Tekin var ákvörðun um þetta í kjölfar hertra krafna um sóttvarnir sem taka gildi á morgun Þorláksmessu en vegna mikillar fjölgunar Covid-smita á landsvísu mega aðeins 20 koma saman og halda verður tveggja metra fjarlægð öllum stundum.

Sigríður segir að í Egilsstaðakirkju muni þó fara fram svokölluð Opin jólakirkja milli 16 og 18 á aðfangadag. Þá mun organisti kirkjunnar leika jólatóna og á fimmtán mínútna fresti flutt jólaguðspjall. Hátíðin sjálf svo hringd inn í lok þeirrar dagskrár og fólki frjálst að koma og fara að vild á meðan þessu stendur. Grímuskylda verður fyrir hendi og takmarkanir á fjölda innandyra.

Á Seyðisfirði verður engin messa en kirkjan verður opnuð 17:45, sungnir jólasálmar og jólin svo hringd inn klukkan 18. Engar messur fara heldur fram í kirkjum Austfjarðaprestakalls.

Bæði á Vopnafirði og Djúpavogi er enn verið að leita leiða til að halda jólamessu en ólíkt flestum öðrum kirkjum í fjórðungnum er tæknilega gerlegt á þeim stöðum að hólfa niður með ásættanlegum hætti.

Sigríður segir ákvörðunina erfiða en nauðsynlega. Fylgja verði sóttvarnarreglum og enginn vilji skapa óþarfa hættu fyrir kirkjugesti.

„Nú gilda nýju sóttvarnarreglurnar langt fram í janúar þannig að ólíklegt er að þetta breytist nokkuð fyrir áramótin. En ef eitthvað breytist þar þá endurskoðum við þetta af okkar hálfu.“

UPPFÆRT: Sóknarpresturinn á Djúpavogi, Alfreð Finnsson, hefur ákveðið að ekki fari fram opin jólamessa. Henni verður hins vegar streymt í staðinn.