Gul viðvörun fyrir Austurland og Austfirði í kvöld og á morgun

Gefin hefur verið út gul viðvörun vegna hríðarveðurs sem spáð er á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum frá því í kvöld og út morgundaginn.

Viðvörunin tekur gildi á Austfjörðum í dag klukkan 18 en 21 að Austurlandi að Glettingi. Báðar gilda til miðnættis annað kvöld.

Spáin er áþekk fyrir bæði svæðin, þó heldur verri fyrir Austfirðina. Búist er við norðan og norðaustan 10-20 m/s með skafrenningi eða él sem breytist yfir í samfellda snjókomu í nótt.

Hvassast verður til fjalla þar sem reikna má með vindhviðum allt að 35 m/s. Líklegt er að truflun verði á samgöngum, að minnsta kosti með lokun fjallvega.

Veðurstofan hefur einnig varað við hættu á snjófljóðum í brattlendi vegna veikleika í snjóalögum. Einkum á Norðurlandi hefur fólk á ferð til fjalla sett af stað snjóflóð síðustu daga.

Viðbúið er að viðburðum verði frestað vegna hríðarinnar. Þannig var í gær ákveðið að fresta Austurlands móti á skíðum um tvær vikur.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.