Hægt að kjósa um nýtt útlit Herðubreiðar

Íbúum á Seyðisfirði verður gefinn kostur á að segja sína skoðun á tillögum um nýtt ytra byrði félagsheimilisins Herðubreiðar í rafrænni könnun á vegum sveitarfélagsins Múlaþings. Þrjár mismunandi efnisleiðir eru lagðar til.

Athugun hefur staðið yfir að undanförnu á hvernig hægt sé að gera við ytra byrði hússins. Það er orðið nokkuð illa farið, töluvert sprungið og sums staðar kominn leki.

Á íbúafundi á Seyðisfirði í gær voru kynntar þrjár tillögur sem íbúar geta valið á milli.

Í fyrsta lagi er tillaga um að klæða húsið með möttum álplötum. Það er ódýrasti kosturinn í heildina því ekki þarf miklar viðgerðir á húsinu þótt plöturnar sjálfar séu ekki ódýrar. Áætluð ending slíkrar klæðningar er 30-40 ár.

Tillaga númer tvö er að múra þannig að Herðubreið fái svipaða áferð og hún hefur í dag. Múrinn er talinn endast í 10-20 ár, en tiltölulega einfalt er að gera við ef eitthvað gerist.

Þriðja tillagan felur í sér að múra húsið fyrst og klæða það síðan með steiningu. Þannig yrði komist næst upprunalegu útliti þess. Sú aðferð er dýrust, endingin 10-20 ár en viðgerðir hvað erfiðastar.

Á íbúafundinum í gær var meðal annars spurt um mögulega hækkun á súlum á stafni hússins, en þær sköguðu upphaflega töluvert upp úr byggingunni. Svarað var að möguleikinn hefði verið ræddur en erfitt væri að verja súlurnar þannig að þær entust til langtíma. Þær séu því ekki á dagskránni.

Könnunin fór í loftið í hádeginu í dag á vef Múlaþings. Hún verður opin í tvo sólarhringa.

herdubreid al
Áætlað útlit með álklæðningu

herdubreid mur
Áætlað útlit með múrverki.

herdubreid steind
Áætlað úrlit með steinklæðningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.