Skip to main content

Hæst hlutfall erlendra íbúa í Fljótsdal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. des 2021 11:18Uppfært 16. des 2021 11:19

Hæsta hlutfall erlendra íbúa á Austurlandi er í Fljótsdalshreppi. Þar er einnig hæsti meðalaldurinn. Mesta fjölgunin undanfarið ár er í Fjarðabyggð.


Þetta er meðal þess sem lesa má út úr sjálfvirkum skýrslum Þjóðskrár fyrir sveitarfélög, sem er ný þjónusta stofnunarinnar.

Í Fljótsdal eru 19% íbúa með erlent ríkisfang, en þar á eftir er Fjarðabyggð með 18,1%. Í Múlaþingi er hlutfallið 12,7% og 9% í Vopnafjarðarhreppi.

Meðalaldurinn er einnig hæstur í Fljótsdal, 45,7 ár. Á Vopnafirði er hann 41,2, 39,2 í Múlaþingi og 38,1 í Fjarðabyggð.

Samkvæmt samantektinni fjölgaði um 102 íbúa í Fjarðabyggð undanfarið ár, 50 í Múlaþingi, 9 á Vopnafirði og 2 í Fljótsdal.

Þjóðskrá hóf í morgun birtingu á sjálfvirkum skýrslum úr fasteignaskrá, þjóðskrá og kaupskrá sem sniðnar eru að einstökum sveitarfélögum. Með þeim er hægt að nálgast heildstæðar upplýsingar um stöðuna á fasteignamarkaði, fyrstu kaupendur, íbúafjölda og fleira.

Gögnin í skýrslunum byggja á sjálfvirkum gagnauppfærslum sem eru flestar uppfærðar einu sinni á sólarhring og gefur því raunstöðu yfir skráðan fjölda íbúa, aldursdreifingu þeirra,veltu á fasteignamarkaði, fyrstu kaupendur, kaupverð, þróun fasteignamats og fleira.

Fyrir þá sem vilja frekari upplýsingar um einstaka gagnasöfn má skoða það nánar á vef Þjóðskrár skra.is. Gögnin verða svo gerð aðgengileg í vefþjónustum fyrir stórnotendur á fyrri hluta árs 2022.

Í tilkynningu er haft eftir Margréti Hauksdóttur, forstjóra Þjóðskrár, að sífellt þörf sé eftir aðgengilegri og meiri gögnum. Hjá stofnunni hafi verið í gangi endurskoðun og sjálfvirknivæðing á talnagögnum og sé þetta einn liðurinn í þeirri þróun.