Hafa íhugað aðgerðir ef eldislax sést í miklu magni í Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. ágú 2025 12:03 • Uppfært 19. ágú 2025 12:04
Stjórnendur Six Rivers, sem heldur utan um sex laxveiði ár á Norðausturlandi, hafa undirbúið til hvaða aðgerða þeir grípa ef eldislax eða hnúðlax gengur í miklu magni upp í ár á svæðinu. Framkvæmdastjórinn segir opið sjókvíaeldi ógna villtum laxi.
„Við höfum hugað að því við myndum gera ef hingað kæmu 1.000-2.000 hnúðlaxar eða eldislax í sama magni og er að gerast á Norður- og Vesturlandi. En það er engin ástæða til slíkra aðgerða enn,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers.
Í júlí varð vart við eldislax í Haukadalsá í Dölum og í síðustu viku var gripið til aðgerða til að reyna að fanga slíka fiska. Eftir að aðgerðirnar hófust var staðfest að gat hefði fundist á eldiskví í Dýrafirði og líkur á að fiskur hafi sloppið þaðan. Í þessari viku er von á staðfestingu á uppruna eldislaxanna.
Samkvæmt frétt frá Landssambandi veiðifélaga frá í gærkvöldi hafa veiðst 10 eldislaxar í sumar, þar af átta í Haukadalsá, einn í Vatnsdalsá í Húnavatnssýslum og einn í Helluá í Skagafirði. Í Haukadalsá er búið að setja upp grindur til að reyna að varna því að hnúðlax og eldislax leiti upp í ána. Í Miðfjarðará í Miðfirði var byggð stífla í snatri í sama tilgangi.Að auki hefur fundist þar töluvert af hnúðlaxi, sem er framandi tegund í íslenskri náttúru.
Upplýst ákvörðun að fórna villtum laxi fyrir eldislax
Tilgangur Six Rivers er að styðja við framgang villta Atlantshafslaxins, einkum með að bæta búsetuskilyrði hans í þeim ám sem félagið heldur utan um, sem meðal annars eru árnar í Vopnafirði. Talsmenn félagsins hafa einnig verið gagnrýnir á sjókvíaeldi við Ísland.
„Formenn veiðifélaga og leigutaka funduðu fyrir nokkrum dögum og niðurstaða þess fundar var skýr. Að heimila eldi í opnum sjókvíum jafngildir því að fórna íslenska laxastofninum. Þetta er olía og vatn sem ekki blandast.
Öll umræða stjórnmálamanna um að efla eftirlit og að þeir sem stundi starfsemina borgi er óskhyggja. Þeir stjórnmálamenn sem hafa tekið ákvarðanir þurfa að gera á því ábyrgð. Ef það á svo að veita frekari heimildir þá erum við klárlega að fórna íslenska laxinum. Það er þá upplýst ákvörðun að gera það fyrir norska fjárfesta.
Mér finnst sérstakt að talað sé um eldið eins og efnahagsundur fyrir ákveðin sveitarfélög en það er lítið talað um hvað það eyðileggur í sveitunum. Það eru einfaldlega tekin hlunnindi af einum aðila og færð til annars,“ segir Gísli.
Enginn eldislax enn fundist á Vopnafirði
Til þessa er ekki vitað til þess að eldislax hafi nokkru sinni veiðst í ám Six Rivers. Þar hafa hins vegar komið fram blendingar, afkomendur villts og ræktaðs lax. Ekki er ljóst hvort þeir blendingar hafi orðið til í ánum eða komið annars staðar frá. Líffræðingar hafa varað við að blendingar séu verr til þess fallnir að lifa af í náttúrunni heldur en hreinir villtir fiskar.
Gísli bendir líka á að fljótt geti syrt í álinn ef stór slepping verður á Austfjörðum. „Íslenski laxastofninn telur um 60.000 einstaklinga. Í einni eldiskví eru um 100.000 laxar. Ef slysaslepping yrði á slæmum tíma þá kæmi lax í Vopnafjörð.“
Hnúðlax gengur á oddatöluárum
Hnúðlaxinn er hins vegar þekkt vandamál. Á Íslandi veiddust aðeins stakir hnúðlaxar fram til ársins 2017 þegar þeir urðu 54, síðan 232 árið 2019, 339 árið 2021 og yfir 600 fyrir tveimur árum .Gísli segir að í sumar hafi veiðst 10-15 hnúðlaxar í Selá og annað eins í Hofsá. Hnúðlaxinn er sérstakur að því leyti að hann lifir aðeins í tvö ár og árgangar á oddatöluári virðast sterkari sem skýrir af hverju þeir veiðast aðeins hér annað hvert ár.
Á ráðstefnu, sem Six Rivers hélt á Vopnafirði í fyrra, ræddi Kjetil Hindar, rannsóknastjóri norsku Náttúrufræðistofnunarinnar erindi um útbreiðslu hnúðlax í Norður-Atlantshafi. Hnúðlaxinn kemur úr Kyrrahafi en var fluttur þvert yfir Sovétríkin og síðar Rússland til ræktunar í ám. Ekki hefur verið fluttur lax síðan um aldamót þannig sá lax sem nú kemur er afkomandi þess.
Nú er svo komið að hnúðlaxinn finnst allt í kringum Norður-Atlantshafið og hafa Norðmenn fundið álíka aukningu og Íslendingar. Árið 2023 voru hnúðlaxar í norskum ám orðnir 250.000, samanborið við 15.000 árið 2017, og orðnir fleiri en villtu laxarnir.
Kjetil sagði hnúðlaxinn ógna bæði villtum og öldum laxi. Hnúðlaxinn virðist ráðast á villta laxinn og taka frá honum æti eða jafnvel hrekja hann af búsetusvæðum. Lítil hætta er hins vegar á blöndun. Hnúðlaxinn getur síðan borið smitsjúkdóma í eldislax.
Hissa á að hnúðlaxinn dafnar en ekki villti laxinn
Aðspurður um hnúðlaxinn segir Gísli að hann sé ekki enn í því magni á Norðausturlandi að það skapi mikla hættu. Þá sé ekki heldur ljóst hvaða áhrif hann hafi í lífríki ánna né af hverju hann vaxi svona vel.
„Við vitum ekki enn hvort hnúðlaxinn er minkur eða lóa. Okkar sérfræðingar hafa ekki komið með afdráttarlaus svör. Eitt er hvort það verði verra að selja í árnar. Það væri ekki spennandi að veiða neðst í Selá með 1.000 hnúðlaxa og rotnandi fisk í kring.
En það sem við höfum spurt okkar sérfræðinga að er hvers vegna þetta aðkomudýr úr Kyrrahafi nær að breiðast út og vaxa og dafna í hafinu meðan villti laxinn er í lóðréttu falli. Við því hefur ekki komið neitt skýrt svar.“
Góð veiði í sumar en lítið vatn orðið í ánum
Samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga höfðu fyrir viku 788 laxar verið veiddir í Selá í sumar, en hún er í fjórða sæti yfir mestu veiðiárnar. Úr Hofsá voru komnir 528 laxar en hún er sjöunda á listanum.
Gísli segir að sumarið hafi verið ágætt en veiðitímabilið hjá Six Rivers er til 10. september. Hann segir líka vísbendingar um að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í von um að bæta búsetuskilyrði við árnar, séu að skila sér.
„Það hefur verið einstök blíða og fyrstu tölur um lífríki ánna eru þá á vegu að það sem tapaðist í fyrra vegna kulda hafi unnist upp í sumar. En þar sem varla hefur komið dropi úr lofti vikum saman er vatnsstaðan orðin lág. Árnar okkar eru vatnsmiklar frá náttúrunnar hendi sem þýðir að við höfum getað veitt og fengið ágætar tölur. Það hafa fleiri fiskar farið um teljarann í Selá heldur en í fyrra.
Okkur finnst við séum að ná jafnvægi í ánum þannig að sveiflur séu að minnka. Sérfræðingar sögðu okkur fyrir nokkrum árum að ýktar sveiflur væru vísbending um að hart væri gengið að stofni en stöðugleiki þýði að náttúran jafni þær út. Núna hefur veiðin hjá okkur verið nokkuð stöðug í 3-4 ár.“
Þá hefur á vegum Six Rivers verið haldið áfram framkvæmdum við veiðihús. Næst á dagskrá eru ný hús við Hafralónsá í Þistilfirði og Hofsá í Vopnafirði. Þar hefur verið unnið að vegagerð í sumar.