Halda málþing um fjárfestingar í ferðamennsku á Austurlandi
Nokkur þekkt nöfn úr ferðaþjónustugeiranum hérlendis taka þátt í sérstöku pallborði sem tengist málþingi sem Austurbrú stendur fyrir á morgun í Valaskjálf. Þar er meginþemað fjárfestingar í ferðaþjónustu á Austurlandi.
Það er Austurbrú sem stendur fyrir málþinginu sem hefst eftir hádegið en fyrir hádegi fer jafnframt fram ársfundur stofnunarinnar. Þar verður meðal annars kynntur nýr vefur um svæðisskipulag Austurlands sem Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa látið vinna að að undanförnu.
Á málþinginu heldur fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, Jóna Árný Þórðardóttir, erindi um framtíðarsýn í ferðaþjónustu í fjórðungnum en auk hennar taka þátt Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður Nordic Ignite, Renata Sigurbergsdóttir, frá Arctic Adventure og Hildur Sveinbjörnsdóttir, fyrirtækjaráðgjafi hjá Arctica Finance. Þau fara yfir hvernig best sé að standa að fjárfestingum í greininni og þau tækifæri sem til staðar eru hér.
Að sögn Valdísar Vöku Kristjánsdóttur, sem skipuleggur daginn af hálfu Austurbrúar, eru allir velkomnir á málþingið og þar má verða margs vísari um hvað hafi skuli í huga varðandi framtíð ferðaþjónustu hér fyrir austan.
„Það er í raun engin sérstök skráning á fjárfestingafundinn enda hann opinn en við reiknum með kringum 70 manns allavega.“
Fundurinn er öllum opinn en honum verður jafnframt streymt á YouTube fyrir áhugasama sem ekki komast á staðinn.
Hvar eru tækifærin í ferðaþjónustu austanlands og hvernig er vænlegast að fjárfesta í þeim tækifærum er þema málþings Austurbrúar á morgun.