Heldur áfram með Lífkolin eftir eldsvoðann
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. apr 2023 18:09 • Uppfært 28. apr 2023 18:11
Hörður Guðmundsson á Víðivöllum ytri I í Fljótsdal horfði á bak tækjum og efniviði fyrir um tuttugu milljónir króna þegar fjárhús, sem hann hafði breytt í smíðaverkstæði, brunnu í byrjun febrúar. Hörður hafði ekki löngu áður gangsett sérstakan ofn til að gera viðarkol. Ofninn slapp frá eldinum.
Viðarkol, eða Lífkol eins og Hörður og samstarfsmaður hans, Magnús Þorsteinsson, nefna vöru sína, verða til þegar hvers kyns lífræn efni, en oftast nær viður af einhverju tagi, eru hituð upp í fimm til sex hundruð gráður í allt að sólarhring.
Annaðhvort í sérstakri sérhannaði tromlu eins og þeir eru með, ellegar á gamla mátann með sérstakri kolagröf sem svo er hulin torfi svo ekki komist loft að. Eftir tiltekinn tíma verður úr viðarkol sem líta út eins og venjuleg grillkol en eru mun léttari og næstum plastkennd viðkomu.
Slík kol brenna mjög hreint miðað við hefðbundin kol eða annað eldsneyti og þessi vara er orðin afar eftirsótt víða vegna sí hertari mengunarvarnareglugerða. „Við vorum byrjaðir að framleiða fyrstu pokana af lífkolum þegar áfallið varð,“ segir Hörður í viðtali við Austurgluggann.
Kolaofninn var utandyra þegar eldurinn blossaði upp og skemmdist ekki. „Þetta er ævagömul aðferð til að nýta lífrænt efni eins og við til að framleiða eldsneyti. Við vorum byrjaðir að kynna þetta og reyna að selja og urðum varir við töluverðan áhuga svo ljóst er að það er markaður fyrir lífkol í landinu. Þessu höldum við áfram enda hægt að nýta alls kyns grisjunar- og úrgangsvið til framleiðslunnar en við erum auðvitað á byrjunarreit aftur eftir eldsvoðann.“
Skaust heim af þorrablótsæfingu til að sækja smíðaefni
Hörður hafði í nokkur misseri fyrir brunann unnið í að standsetja smíðaverkstæðið í fjárhúsunum. Hann kveðst hafa einbeitt sér að því og þess vegna ekki hugað að tryggingunum sem gerði áfallið enn verra. Hann var ásamt fleira fólki á lokaæfingu þorrablóts Fljótsdælinga þegar eldurinn kom upp.
„Ég var þetta kvöldið ásamt fleirum hér úti í félagsheimilinu Végarði að undirbúa þorrablót Fljótsdalshrepps og það kemur í ljós að það vantar góða spónaplötu út af einu atriðinu. Ég bregð mér því á verkstæðið til að grípa eina svoleiðis og tek þá eftir þegar nær dregur að það rýkur eitthvað úr þakinu á einum stað.
Ég óttaðist strax að það hefði kviknað í og það fékk ég staðfest þegar ég opnaði hurðina og leit inn. Þar var töluverður eldur, mikill þykkur reykur og hitinn svo mikill að ég komst ekki einu sinni að vatnskrana rétt innan við hurðina til að reyna að að slökkva. Hitinn var alveg ægilegur.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.