Heppni að ekki hafi enn þurft að aflýsa áætlunarflugi vegna lokunar flugbrautarinnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. feb 2025 11:56 • Uppfært 26. feb 2025 12:00
Flugrekstrarstjóri Icelandair segir að undanfarin ár hafi sífellt verið þrengt að Reykjavíkurflugvelli með framkvæmdum sem geri skilyrði þar verri. Slíkt sé varasamt, ekki bara upp á flug af landsbyggðinni heldur með tilliti til öryggis höfuðborgarbúa. Heppni með veður hafi gert það að verkum að áætlunarflug innanlands hafi ekki raskast eftir að austur-vestur braut vallarins var lokað fyrr í mánuðinum.
Austurfrétt greindi frá því að þriðjudaginn í síðustu viku hefðu skapast erfiðar aðstæður við flugvöllinn vegna hliðarvinds. Yfirleitt er reynt að lenda flugvélum með nefið upp í vindinn en vindur frá hlið skapar ókyrrð.
„Hámark hliðarvindar er mismunandi eftir brautarskilyrðum. Mörkin þrengjast ef hálka eða bleyta er á brautinni en þau eru gefin út af framleiðendum vélanna. Þau eiga við bæði í flugtaki og lendingu. En það eru engin takmörk fyrir hversu sterkur vindurinn má vera í fangið,“ útskýrir Guðmundur Tómas Sigurðsson, flugrekstrarstjóri Icelandair sem annast áætlunarflug frá Egilsstöðum.
Tæpar þrjár vikur eru núna síðan þeirri flugbraut Reykjavíkurflugvallar sem snýr í austur-vestur var lokað var lokað að kröfu Samgöngustofu vegna hæðar gróðrar í Öskjuhlíð. Gróðurinn þýðir að aðflugshorn brautarinnar er orðið of þröngt. Þar með er aðeins norður-suður braut vallarins opin.
Engin hætta þrátt fyrir ókyrrð í aðflugi og harða lendingu
Austurfrétt hefur heimildir fyrir því að á þessum tíma hafi flugstjórar Icelandair oftar en einu sinni varað flugfarþega á leið frá Egilsstöðum við ókyrrð, sem auknar líkur eru á vegna lokunarinnar, fyrir lendingu í Reykjavík. Farþegar á ferð á þriðjudagskvöldið fyrir viku, sem Austurfrétt ræddi við, upplifðu ótta í lendingu. Fleiri farþegar úr sömu vél hafa síðan lent harðri lendingu.
Icelandair hefur síðan tekið fyrir að hætta hafi verið á ferðum í það skipið, sem og að flugstjóri hafi bent fólki á neyðarútganga sérstaklega í lendingunni. Guðmundur Tómas segir að í kjölfar fréttarinnar hafi aðstæður í fluginu verið skoðaðar nánar og verið staðfest að engin hætta hafi verið á ferðinni, hliðarvindurinn á jörðu hafi mælst 8 m/s. Það sé langt innan allra marka þótt það geti skapað ókyrrð.
Um lendinguna segir hann að þær séu næstum jafn misjafnar og þær eru margar. Ekkert hafi þótt óeðlilegt í þessari, þótt þekkt sé að fólk upplifi verri lendingar eftir ókyrrð. Varðandi aðvaranir til farþega segir Guðmundur Tómas, sem meðal annars hefur kennt á flughræðslunámskeiðum, að yfirleitt sé betra að vara frekar við yfirvofandi ókyrrð en ekki því það rói yfirleitt frekar þá farþega sem séu hræddastir. Ótti skapist þegar fólk lendi í aðstæðum sem það á ekki von á og telur að ekki sé lengur stjórn á aðstæðum. Þar skipti ekki máli hvort flogið sé til Tenerife eða Egilsstaða. Það er oft gert í flugi austur því ókyrrð er oft yfir Lagarfljóti.
Nýjar byggingar auka ókyrrð
En burtséð frá þessu tiltekna flugi þá hefur umhverfi Reykjavíkurflugvallar verið þróað þannig undanfarin ár að meiri hætta er á ókyrrð en áður. Það snýst um meira en bara byggingarnar. „Ókyrrð verður til vegna lofts sem er á hreyfingu yfir fjöll, hæðir og líka byggingar. Í mörg ár hefur ókyrrð úr Þingholtunum og Hallgrímskirkju verið þekkt en síðan hefur bæst við ókyrrð frá nýju byggingunum við Hlíðarenda.“ Þessar byggingar urðu til þess að suðvestur-norðaustur braut vallarins, svokallaðri neyðarbraut, var lokað árið 2017.
Bæði umhverfi vallarins og náttúrulegar aðstæður gera það að verkum að frá upphafi hefur þótt ástæða til að hafa minnst tvær flugbrautir í Reykjavík. „Það er ekki tilviljun að flugbrautirnar liggja eins og þær eru. Þær eru lagðar fyrir ríkjandi vindátt. Þegar breski herinn byggði völlinn upp á styrjaldarárunum var búið að greina vindáttirnar. Það var líka ástæða fyrir því að flugbrautirnar voru hafðar þrjár.“
Á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum er til samanburðar aðeins ein flugbraut. Aðspurður svarar Guðmundur Tómas að í kringum Egilsstaðaflugvöll sé opið svæði og út frá sögulegum gögnum nokkuð ljóst úr hvaða áttum vindurinn blæs, enda brautin byggð þannig upp. Á móti sé vel þekkt að í stífri austanátt í fjallahæð þurfi að loka vellinum vegna hliðarvinds. Eins séu ástæður fyrir því að tvær flugbrautir séu í Vestmannaeyjum og Keflavík. Mögulega hefði það verið gert víðar ef plássið væri nægt.
Eins og Eyjamenn hefðu ætlað að loka höfninni
Enn hefur ekki þurft að aflýsa áætlunarflugi eftir lokun brautarinnar en Guðmundur Tómas segir það fyrst og fremst heppni þar sem veður hafi verið stillt. „Við getum skrifað það á heppni með veður. Undanfarnar vikur hafa skipst á norðan og sunnan áttir en austanáttin í Reykjavík er yfirleitt stíf á þessum árstíma. Flug í nóvember, desember og janúar hefði verið erfitt án brautarinnar. Þetta gæti breyst um helgina, þegar spáð er hvassviðri“
Í nokkur ár hefur verið vitað hvert stefndi með gróðurinn í Öskjuhlíð, en á vegum Reykjavíkurborgar var ekki farið í trjáfellingar fyrr en að brautinni var lokað. Nú er þess beðið hvort Samgöngustofa telji nóg hafa verið gert í bili þannig að hægt sé að opna brautina. „Umræðan um trén í Öskjuhlíðinni er ekki ný og við höfum fylgst með henni. Á sama tíma er mikil óvissa um hann, sumir vilja hann burt en aðrir ekki og eins hver eigi hann eða hafi vald yfir honum,“ segir Guðmundur Tómas.
Að hans mati er völlurinn ekki bara mikilvægur fyrir öryggi íbúa landsbyggðarinnar, sem treysta á sjúkraflug, heldur líka höfuðborgarsvæðisins. „Í fyrsta lagi er hann varaflugvöllur fyrir millilandaflugvöllur en í öðru lagi finnst mér umræðan um framtíð vallarins sérstök í ljósi þeirrar óvissu sem eldgosin á Reykjanesi hafa skapað. Hún er eins og Vestmanneyingar hefðu fyrir árið 1973 verið að tala um að loka höfninni. Það er hægt að teikna upp ýmsar sviðsmyndir þar sem völlurinn er nauðsynlegur fyrir okkur sem búum á einangraðri eyju.“