Sjúklingar og almennir farþegar óttaslegnir við lendingu á Reykjavíkurflugvelli

Flugstjóri áætlunarvélar Icelandair sem lenti á þeirri einu flugbraut sem opin er á Reykjavíkurflugvelli taldi fulla ástæðu til að ítreka fyrir farþega að kynna sér öryggisútganga vélarinnar og önnur mikilvæg öryggisatriði skömmu fyrir mjög vandasama lendingu í gærkvöldi. Farþegar voru eðli máls samkvæmt óttaslegnir. Ókyrrðin um borð í sjúkraflugvél sem lenti skömmu síðar vakti meira að segja sjúklinginn sjálfan upp úr móki þrátt fyrir að vera á sterkum morfínlyfjum.

Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar og annarra aðila sem sjá eiga um að öryggi flugfarþega um Reykjavíkurflugvöll að fella ekki hæstu tréin í Öskuhlíð í tíma hefur valdið verulegum vandræðum síðustu sólarhringa. Vindáttin verið með þeim hætti að brottfarir og lendingar á Reykjavíkurflugvelli hafa verið þvert á vind síðustu tvo sólarhringa með tilheyrandi ókyrrð og hættu.

Austurfrétt náði tali af tveimur farþegum áætlunarflugs Icelandair frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í gærkvöldi sem báðir sögðu aðflug og lendinguna sjálfa hafa verið með óþægilegasta móti. Flugvélin hafi vaggað óþægilega mikið í öllu aðfluginu og velflestir farþegar hallað sér fram og haldið fast í sætisbök fyrir framan sig í margar mínútur fyrir lendinguna.

Ekki síður var lending sjúkraflugvélar með alvarlega veikan sjúkling vandasöm. Flugmenn þeirrar vélar rökræddu um langa hríð hvort fara ætti beint til Keflavíkur, þar sem hægt væri að lenda beint á ríkjandi vindstefnu á þeim tíma, fremur en að lenda í hliðarvindi á Reykjavíkurflugvelli. Úr varð, sökum þess að sjúklingurinn um borð hafði fengið hjartaáfall og var milli heims og helju, að reyna lendingu í Reykjavík sem tókst þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Lending í Keflavík hefði bætt allt að klukkustund við að sjúklingurinn hefði komist undir læknishendur á Landspítalanum. Tími sem hefði hugsanlega skipt sköpum hvort viðkomandi héldi lífi eður ei.

Lokun Austur-Vestur flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli sökum trjágróðurs í Öskjuhlíð er ótímabundin þangað til tekist hefur að fella um 1400 tré hvers hæð ógnar flugöryggi á þeirri braut. Sú vinna er hafin en mun taka viku til tvær í viðbót áður en til greina kemur að opna báðar flugbrautir vallarins á ný.

Áætlunarvél að lenda á Austur-Norðurbraut Reykjavíkurflugvallar. Sú hefur verið lokuð síðustu dægrin og verður lokuð meðan trjágróður hindrar öryggt flugtak eða lendingu í þá áttina. Mynd RUV

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.