Hestafólk á Djúpavogi fær ekki umbeðið land undir starfsemina
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings fagnar hugmyndum hestafólks á Djúpavogi um uppbyggingu á hestamannasvæði við bæinn en telur ekki að landið sem óskað var eftir henti undir slíka starfsemi.
Austurfrétt greindi frá málinu fyrir nokkru eins og lesa má um hér en nýverið var stofnað hestamannafélagið Glampi á Djúpavogi og forsvarsaðilar fóru þess á leit við Múlaþing að fá til afnota svæði sem kallast Loftskjól sem finnst við Bóndavörðulág svokallaða. Það svæði væri nálægt bænum til að stytta vegalengdir og auðvelda aðgengi og þar væri heldur engin önnur starfsemi fyrir.
Það er einmitt nálægðin við bæði núverandi og fyrirhugaða íbúðabyggð sem umhverfis- og framkvæmdaráði hugnast ekki samkvæmt bókun ráðsins. Ráðið telur jafnframt of snemmt að ráðast í uppbyggingu mannvirkja á Búlandsnesinu án þess að fram fari víðtæk umræða um framtíðarnýtingu svæðisins.
Þrátt fyrir þetta er hugmyndum að hestamannasvæði fagnað og ráðið lýsir sig reiðubúið til samvinnu um að finna hentugt svæði undir starfsemina. Þar verði einkum horft til svæðisins suðvestan við þéttbýlið.