Skip to main content

Hótel Bláfell verður hótel Breiðdalsvík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. des 2021 15:28Uppfært 17. des 2021 15:49

„Mig langaði að breyta þessu strax og ég keypti hótelið árið 2009 en hafði ekki þroska til þá,“ segir Friðrik Árnason, eigandi og hótelstjóri Bláfells á Breiðdalsvík. Hann verður brátt hótelstjóri hótel Breiðdalsvíkur.

Ákveðið hefur verið að breyta nafni þessa vinsæla hótels sem alla tíð hefur heitið hótel Bláfell formlega í hótel Breiðdalsvík og tekur breytingin gildi um áramótin. Aðeins er um nafnabreytingu að ræða.

Friðrik segir við Austurfrétt að ástæða þessa sé markaðsleg. Nafnið Bláfell sé almennt hvorki þekkt erlendis né hérlendis að undanskildum Austfirðingum.

„Mér fannst kominn tími til að breyta þessu núna og ekki síst sökum þess að nú eru starfandi hér dugmiklir aðilar eins og brugghúsið Beljandi, stórgott bílasafnið og Breiðdalssetrið. Þetta fannst mér kalla á að styrkja Breiðdalsvík sem áfangastað og breytingin er liður í því.“

Friðrik hyggst þó ekki losa sig alfarið við nafnið Bláfell. Eftirleiðis mun veitingastaður hótelsins nefnast því nafni.