HSA hæst heilbrigðisstofnana í Stofnun ársins

Heilbrigðisstofnun Austurlands mælist hæst, annað árið í röð, í könnuninni um Stofnun ársins þar sem mæld er ánægja starfsfólk með vinnustað sinn. Framhaldsskólarnir á Austurlandi eru ofarlega á blaði í sínum flokkum.

Það er Sameyki, stéttarfélag sem stendur árlega fyrir könnuninni. Í henni er reiknuð út einkunn fyrir viðkomandi stofnun út frá svörum starfsfólks í spurningakönnun þar sem til dæmis spurt er um þætti eins og ánægju með laun, vinnuskilyrði, stjórnun, starfsanda og sjálfstæði í starfi.

Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur undanfarin tvö ár verið í efsta sæti stofnana með 40-89 starfsmenn en að þessu sinni taka Þjóðskrá og Menntaskólinn á Ísafirði fram úr. ME er samt með góða heildareinkunn, 4,45.

Verkmenntaskóli Austurlands fær sömu einkunn en er í 13. sæti stofnana með 5-39 starfsmenn með 4,45 í einkunn. Almennt má segja að framhaldsskólarnir komi vel út úr könnuninni.

Stofnanir dómsmálaráðuneytisins, lögreglu- og sýslumannsembættið, koma hins vegar ekki sérstaklega út. Sýslumaðurinn á Austurlandi er í 43. sæti með tæpa 4 í heildareinkunn stofnana með 5-39 starfsmenn. Lögreglan á Austurlandi er í 31. sæti stofnana með 40-89 starfsmenn með um 4 í einkunn. Bæði embættin koma ágætlega út í samanburði við önnur slík. Óánægja með laun dregur hvað helst niður einkunnina.

Meðal stofnana með fleiri en 90 starfsmenn er Heilbrigðisstofnun Austurlands í 17. sæti heildarlistans með 4,17 í heildareinkunn. Annað árið í röð er HSA með bestu einkunn heilbrigðisstofnana á landsvísu. Hjá HSA má meðal annars merkja ánægju með sjálfstæði í starfi, stolt af því að tilheyra stofnuninni og starfsanda.

Ánægt starfsfólk veitir góða þjónustu


Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, segir niðurstöðurnar ánægjulegar því innan stofnunarinnar sé unnið markvisst með niðurstöður könnunarinnar. „Það er hægt að fá ítarlegri greiningu á niðurstöðunum og við höfum nýtt það. Við veljum nokkur atriði af þeim sem við skorum ekki nógu hátt í og síðan kýs starfsfólkið um hver þeirra séu mikilvægust. Við eigum að taka þau þrjú efstu og einblína á þau næsta árið.

Þessi könnun mælir hug starfsfólks til starfseminnar. Hún er okkur mikilvægt því HSA, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, eru þjónustustofnanir. Við erum bara til til að þjónusta íbúa Austurlands. Starfsfólk veitir þjónustuna, ekki tól, tæki eða byggingar.

Þess vegna er það kappsmál okkar að starfsfólki líði vel í vinnunni því það er forsenda góðrar þjónustu, sérstaklega þegar um er að ræða jafn mikilvæga og viðkvæma þjónustu. Þessi könnun rímar líka við þjónustukannanir þar sem HSA hefur komið vel út til þessa. Aðgengi að heilsugæsluþjónustunni okkar virðist gott.“

Innan HSA starfa 450 manns sem dreifast á 13 staði. Guðjón segir starfsfólkið forsendu góðrar niðurstöðu í könnuninni. Áfram verði haldið til að efla starfsandann. „Við hækkum okkur í könnuninni þriðja árið í röð. Ætlum okkar er að hækka enn frekar því til þess eru mörg tækifæri. Við rýnum þessar niðurstöður eins og við höfum gert síðustu ár. En fyrst og fremst þá getur starfsfólk HSA verið stolt af þessari niðurstöðu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.