Hvað ætla ný stjórnvöld að gera fyrir landsbyggðina?
Loftbrú áfram við lýði, meira bundið slitlag á malarvegi, frekari uppbygging háhraðaneta og efling samstarfs við sveitarfélög landsins. Þetta brot af þeim áherslum sem ný ríkisstjórn Íslands vill hafa í hávegum samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála.
Ný ríkisstjórn Íslands loks mynduð með áframhaldandi samstarfi Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og í kjölfarið litið hefur dagsins ljós nýr stjórnarsáttmáli flokkanna.
Þar er útlistað hverju stjórnvöld vilja beita sér sérstaklega fyrir á kjörtímabilinu en Austurfrétt lék forvitni á að vita hvað ný ríkisstjórn leggði sérstaklega áherslu á vegna landsbyggðarinnar og þar á meðal auðvitað okkar hér á Austurlandi.
Hér að neðan gefur að líta grófan lista þess sem viðkemur landsbyggðinni sérstaklega í sáttmálanum:
Loftslagsmál
- Sett verða metnaðarfull markmið um samdrátt í losun vegna landnotkunar og áhersla lögð á að efla náttúrumiðaðar lausnir, m.a. með hvötum til aukinnar skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis.
Stafrænar umbreytingar
- Unnið verður markvisst að því að efla net- og fjarskiptaöryggi.
Heilbrigðismál
- Aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu verður bætt í samráði við heilbrigðisstofnanir í öllum umdæmum.
- Geðheilsuteymi um land allt verða efld, áhrif notenda á þjónustuna aukin og stefnt að því að þjónustan sé fjölbreytt og miðuð að ólíkum þörfum.
Íþróttir og lýðheilsa
- Unnið verður að því í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu.
Börn
- Unnið verður að því í samvinnu við sveitarfélögin að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Samhliða fari fram vinna við að greina og endurskoða þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn og barnafjölskyldur fyrstu ár ævinnar með það að markmiði að auka þjónustu við þennan hóp.
Samgöngur
- Unnið verður að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að efla almenningssamgöngur á landsbyggðinni.
- Mótuð verður áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðganga og horft til reynslu nágrannaþjóða. Stofnað verður opinbert félag um jarðgangagerð.
- Markvisst verður unnið að lagningu bundins slitlags á tengivegi til að styðja við atvinnu- og byggðaþróun og auðvelda skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi.
- Loftbrú verður áfram mikilvægur þáttur almenningssamgangna.
Byggðamál
- Haldið verður áfram að styðja við nýsköpun, m.a. með regluverki og umhverfi sem styður við stofnun og rekstur fyrirtækja, ekki síst í fámennari byggðum. Samhliða verður unnið að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.
- Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.
- Beita þarf hagrænum hvötum í byggðaþróun, m.a. í gegnum Menntasjóð námsmanna.
- Stutt verður við þekkingarmiðstöðvar, rannsóknarsetur á landsbyggðinni, náttúrustofur og fjarheilbrigðisþjónustu í smærri byggðalögum.
- Framlög verða áfram tryggð til jöfnunar húshitunar- og raforkukostnaðar heimila milli dreifbýlis og þéttbýlis.
- Tryggð verður geta og fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar háhraðaneta þar sem markaðsaðilar sinna ekki þeirri þjónustu eða öryggissjónarmið krefjast þess.
Sveitarfélög
- Ríkisstjórnin leggur áherslu á að stuðla að uppbyggingu öflugra og sjálfbærra sveitarfélaga þar sem samfélagslegir og fjárhagslegir hvatar eru til sameiningar.
- Efla þarf enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviðum loftslags- og umhverfismála þar sem þau gegna lykilhlutverki, s.s. í innleiðingu hringrásarhagkerfisins, á sviði fráveitumála, mengunarvarna, vatnsverndar, náttúruverndar og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika.
- Lagaleg staða landshlutasamtaka sveitarfélaga verður skýrð gagnvart þeim verkefnum sem þau sinna og landshlutarnir efldir, m.a. í gegnum sóknaráætlanir landshluta.
- Rannsóknir, vöktun, hættumat og viðbrögð vegna náttúruvár verða efld á grundvelli yfirstandandi þarfagreiningar í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.
Jarðamál og innviðir
- Ljúka þarf við heildarendurskoðun á lögum og reglum um eignarráð, ráðstöfun og nýtingu fasteigna, með áherslu á land og landgæði. Fyrir hendi þurfa að vera upplýsingar um grundvallaratriði og stýritæki til að tryggja samræmi við stefnu stjórnvalda, svo sem í landbúnaði, byggðamálum, auðlindanýtingu og náttúruvernd.
- Eignarhald á landi þarf að vera gagnsætt og áhersla er lögð á hraða uppbyggingu Landeignaskrár, í samvinnu við sveitarfélög og landeigendur. Hugað verður að frekari ráðstöfunum til að vernda gott landbúnaðarland og flýta fyrir flokkun lands með tilliti til ræktunarmöguleika.
Menntamál
- Meta þarf mönnunarþörf til lengri tíma í heilbrigðis- og menntakerfinu og skoða í því samhengi hvort breyta þurfi starfsumhverfi og fyrirkomulagi grunnmenntunar til að mæta vaxandi þörf til framtíðar, m.a. með hliðsjón af aðstæðum í dreifðum byggðum.
- Gert verður átak í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem eykur aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum. Rannsóknarstarf um allt land verður eflt.
Orkumál og náttúruvernd
- Sérstök lög verða sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verður lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Mikilvægt er að breið sátt ríki um uppbyggingu slíkra vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Í því samhengi verður tekin afstaða til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu. Stefna verður mótuð um vindorkuver á hafi.
- Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Um atvinnustarfsemi í nýjum þjóðgarði fer samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem eru í samræmi við meginreglur nýrra laga um atvinnustarfsemi í landi ríkisins.
- Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir stórátaki í samvinnu við sveitarfélög í frárennslismálum þannig að þau standist ítrustu kröfur náttúruverndar um allt land eigi síðar en 2028. Þá verður stuðlað að nýsköpun og notkun helstu tækninýjunga við endurvinnslu og flokkun sorps. Byggt verður undir endurvinnslu og hringrásarhagskerfi með jákvæðum hvötum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.
Iðnaður og nýsköpun
- Haldið verður áfram að styrkja uppbyggingu nýsköpunar á landsbyggðinni með Lóu – nýsköpunarstyrkjum
Ferðaþjónusta
- Stutt verður eftir föngum við frekari dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring til að efla atvinnusköpun og rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja. Efla þarf rannsóknir, nýsköpun og menntun í ferðaþjónustu.
- Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar verður fyrirkomulag gjaldtöku í greininni tekið til skoðunar. Horft verður til þess að breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði. Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.
Sjávarútvegsmál
- Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.
Landbúnaður
- Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun, svo sem sölu afurða beint frá býli á neytendamarkað.
- Efla þarf landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Útfærður verður rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun.
- Við endurskoðun búvörusamninga verður lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verður samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
* Mynd Forsætisráðuneytið