Hvatasjóður fyrir framtakssama Seyðfirðinga
Allir með góðar hugmyndir um uppbyggingu á Seyðisfirði í kjölfar hamfaranna þar í bæ fyrir rúmu ári síðan geta nú sótt um styrk í sérstakan sjóð sem ætlaður er til atvinnuuppbyggingar í bænum.
Hvatasjóður heitir sjóður sem stofnað var til í mars síðastliðnum en í honum lágu upphaflega 215 milljónir króna til uppbyggingar og styrktar atvinnulífinu á Seyðisfirði. Þar af hefur 105 milljónir króna þegar verið úthlutað en 55 milljónir eru til úthlutunar að þessu sinni.
Sjóðnum er ætlað að stuðla að atvinnuuppbyggingu með því að virkja frumkvæði íbúa og annarra sem tengjast byggðarlaginu og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Veittir eru styrkir til atvinnu- og nýskapandi verkefna. Áhersla verður á að styrkja atvinnustarfsemi, á sjálfbærni, bætta nýtingu, notkun staðbundinna hráefna og sýnileika svæðisins.
Opið er fyrir umsóknir til 15. janúar næstkomandi. Nánar hér.