Skip to main content

Hvetja Austfirðinga til að mæta í sýnatöku

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. des 2021 10:37Uppfært 09. des 2021 10:41

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur skorað á Austfirðinga, fleiri en þá sem kunna að vera útsetta fyrir smitum, til að mæta í sýnatöku í dag.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem sett var á Facebook-síðu HSA rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Þar kemur fram að vegna holskeflu smita í fjórðungnum síðustu daga sé skorað á fólk til að mæta í skimun.

Verið sé að skima fyrir duldum smitum í samfélaginu. Með aðgerðinni sé vonast til að hraðar gangi að ná utan um faraldurinn.

Sýnatöku dagsins á Reyðarfirði er lokið, en sérstök PCR-sýnataka verður í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði milli 11 og 13. Niðurstöður úr þeim eiga að liggja fyrir innan sólarhrings.

Þá verða bæði PCR-próf og hraðpróf í boði á Egilsstöðum. Þar er sýnataka frá 12-13:30.

Skráning í sýnatökuna fer fram á heilsuvera.is. Ekki skiptir öllu máli hvaða staðsetning er valin, en fara þarf í gegnum kerfið til að fá útdeilt strikamerki sem er nauðsynlegt við sýnatökuna.

Skráning í hraðpróf vegna smitgátar er á smitgat.covid.is.