Hvetja foreldra til að halda börnum heima milli jóla og nýárs
Þeir foreldrar barna á leikskólaaldri sem þess eiga kost eru hvattir til að halda börnunum heima milli jóla og nýárs til að létta álagi af leikskólum Fjarðabyggðar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu vegna hertra sóttvarnarreglna á landsvísu sem tóku gildi á miðnætti.
Ólíkt öðrum menntastofnunum verða leikskólar almennt opnir eins og venjulega í næstu viku en nýjar sóttvarnarreglur skapa ákveðin vandamál vegna kröfu um 20 manna fjöldahámark og að halda skuli tveggja metra fjarlægð frá næsta manni.
Engar breytingar umfram það sem nú er verða á störfum grunnskóla Fjarðabyggðar. Þeir verða áfram lokaðir fram til 4. janúar. Hins vegar verða fjöldatakmörk í sundlaugar og íþróttahús í sveitarfélaginu og einungis heimilt að hleypa inn helming þess fjölda sem almennt má koma.