Skip to main content

Innritun í BS-nám á Reyðarfirði í haust komin á skrið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. maí 2023 11:25Uppfært 11. maí 2023 13:20

Í fyrrahaust var fyrsta sinni boðið upp á BS-gráðu í tölvunarnámi á Reyðarfirði með aðkomu Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Austurbrúar. Þátttakan var í dræmari kantinum þá en nú þegar tæpur mánuður er til stefnu er útlitið mun betra.

Það staðfestir Gréta Björg Ólafsdóttir, sem heldur utan um verkefnið, en frestur til að sækja um þetta þriggja ára nám í haust rennur út í byrjun næsta mánaðar. Það gæti helgast af því að í þetta sinn hefur áhersla verið lögð á að kynna þennan valkost fyrir Austfirðinga sem veigra sér við eða komast ekki annað þar sem slíkt nám er í boði. Námið á Reyðarfirði er sveigjanlegt en reglulegir verkefnatímar fara fram í Fróðleiksmolanum í hverri viku.

„Við höfum lagt áherslu á að auglýsa námið og kynna að undanförnu og framundan er reyndar smá herferð af okkar hálfu svona síðustu vikurnar áður en fresturinn rennur út. Það væri afar gott að ná inn góðum kjarna fólks sem svo væri hægt að byggja á til framtíðar. Það er mikilvægt því maður veit ekki hvernig þeir sem að þessu standa taka því ef ekki fleiri hafa áhuga nú en á síðasta ári.“

BS-námið ekki það eina sem kostur gefst á í haust. Þá verður einnig í boði tveggja ára diplómagráða í sama fagi en það ekki síst ætlað þeim er hafa háskólagráðu nú þegar en vilja bæta tölvunarfræðinámi við þá menntun.

Lengi hafa verið köll eftir háskólamenntun hér austanlands og í fyrra varð það að raunveruleika en þátttaka þó dræm. Mynd UNAK