Jólasleði Sveinka framleiddur í Neskaupstað
„Það er fjöldi fólks sem kemur að þessu skemmtilega verkefni sem við vinnum í samvinnu við Fab Lab á Ísafirði,“ segir Móses Helgi Halldórsson, kennari í Verkmenntaskóla Austurlands.
Þar á bæ eru áhugasamir að leggja lokahönd á framleiðslu alvöru jólasleða eins og jólasveinninn er þekktur fyrir að nota en til stendur að ljúka smíðinni fljótlega og sýna gripinn bæjarbúum á föstudaginn kemur.
Um einn sleða er að ræða sem Fab Lab Austurland framleiðir en Fab Lab er heiti yfir tilteknar vinnusmiðjur sem finnast bæði víða um land og erlendis líka. Til að komast í þann hóp þarf vinnustaður að búa yfir ýmsum sérstökum tölvustýrðum tólum og tækjum og er fyrst og fremst ætlað til fræðslu og lærdóms fyrir kennara. Þó bjóða allar Fab Lab vinnusmiðjur öllum áhugasömum að koma og spreyta sig einn dag í viku hverri.
Móses, sem heldur utan um Fab Lab í Verkmenntaskólanum ásamt því að vera kennari í málm- og véltæknifræðum, segir jólasleðann vera samvinnuverkefni við Fab Lab á Ísafirði en þar eru menn að framleiða fjórtán slíka sleða sem notaðir eru við hinar ýmsu uppákomur.
„Þetta er mjög skemmtilegt verkefni sem margir koma að og við erum oft með sitthvað forvitnilegt í gangi. Það er til dæmis stutt síðan við vorum að framleiða súkkulaðimola hér í vinnustofunni.“
Mynd: Sleðinn umræddi. Fab Lab Austurland