Skip to main content

Jón Björn: Taldi hvorki hollt fyrir mig né Fjarðabyggð að halda áfram

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. feb 2023 09:50Uppfært 24. feb 2023 10:12

Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að athugasemdir um skráningu og fasteignagjöld af sumarbústað hans hafi engin áhrif haft á ákvörðun hans um að láta af störfum. Langvarandi álag og umtal um persónu hans hafi ráðið þar mestu.


Jón Björn tilkynnti um starfslokin á fundi bæjarráðs á mánudagsmorgunn. Nokkrum dögum fyrr hafði sveitarfélaginu borist athugasemd um að Jón Björn og systkini hans ættu sumarbústaði sem ekki væru skráðir og ekki greidd af gjöld inni í Fannardal, sem gengur inn úr Norðfirði.

Í grein sem Guðröður Hákonarson, bróðir Jóns Björns, birti á Austurfrétt í gær rekur hann tildrög málsins og áralangar deilur sín, sem landeiganda í Fannardal við Fjarðabyggð um skipulagsmál og réttindi á svæðinu. Þau mál séu enn í úrskurðarferli.

„Jón Björn gat aldrei sótt um deiliskipulag þar sem hann var ekki eigandi Fannardals og hefur aldrei verið. Meðan ekki var gildandi deiliskipulag og samþykktar lóðir, samkvæmt því, er ekki hægt að fá lokaúttekt á hús og þar af leiðandi ekki hægt að leggja á það fasteignagjöld,“ skrifar Guðröður meðal annars.

Í samtali við Austurfrétt á þriðjudag sagðist Jón Björn ekki ætla að tjá sig um málið að sinni. Erindinu hefði verið beint til sveitarfélagsins og þar færi það sína leið þannig að svar kæmi væntanlega fyrir bæjarráð næsta mánudag.

Árásir í kjölfarið staðfesta að ákvörðunin var rétt


Í yfirlýsingunni frá í morgun segir Jón Björn ljóst að ákvörðun manns eins og hans, sem hrærst hafi í bæjarmálum í áratugum, um að hætta af þeim afskiptum sé ekki tekin nema að vel athuguðu máli. Þar hafnar hann því að ákvörðunin snúist um sumarbústaðinn sem hann segir andstæðinga sína í stjórnmálum hafa dregið fram og reynt að gera tortryggilegt, heldur langvarandi álag og ekki síður persónulegt umtal sem hann hafi orðið fyrir.

Hann hafi metið það svo að hvorki væri hollt fyrir hann né bæjarfélagið að halda áfram að sinni. „Þær árásir sem hafa fylgt í kjölfar ákvörðunar minnar og er að því er virðist ætlað að ganga alveg frá pólitískum ferli mínum og jafnvel mér sjálfum staðfesta fyrir mér að ákvörðunin var rétt,“ skrifar Jón Björn.

Hann segist alla tíð hafa haft mikla ánægju af stjórnmálum og tekið í þeim af metnaði og heilindum. Hann hafi þó orðið var við að á alþjóðavísu virðist harka og persónulegt skítast vera að aukast í stjórnmálum. Velta þurfi upp hvaða áhrif það hafi.

„Við höfum á síðustu árum séð mjög mikla veltu í stjórnmálum á Íslandi, ekki síst á sveitarstjórnarstiginu. Það er auðvitað krefjandi að starfa í stjórnmálum á sveitarstjórnarstiginu þar sem nálægðin er mikil og ekki ætla ég að kveinka mér yfir því að gerðar séu miklar kröfur til stjórnmálamanna. Ég fullyrði að stjórnmálamennirnir sjálfir gera miklar kröfur til sjálfs sín. Hörð málefnaleg umræða er nauðsynleg og góð en skítkast og undirróðursstarfsemi er ekki hægt að lifa við til lengdar.“

Að lokum óskar Jón Björn arftaka sínum, Jónu Árnýju Þórðardóttur, til hamingju með starfið.