Skip to main content

Jóna Árný: Skýrslan segir að skýra þurfti stefnuna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2023 11:10Uppfært 27. des 2023 11:12

Vinna er hafin hjá Fjarðabyggð að úrbótum á grundvelli stjórnsýsluúttektar Deloitte. Þar kemur meðal annars fram að skýra þurfi verkskiptingu, bæta samvinnu stjórnenda og skerpa á þjónustu sveitarfélagsins. Bæjarstjóri segir gott að hafa fengið utanaðkomandi mat á rekstri Fjarðabyggðar, sem sé umfangsmikill og flókinn. Íbúar verða kallaðir til funda strax í janúar.


Vinna við skýrsluna hófst í vor og var fyrstu drögum skilað í október. Bæjarráð hefur haft úttektina til meðferðar síðar en hún hefur einnig fengið umfjöllun í bæjarstjórn og verið kynnt stjórnendum innan stjórnsýslunnar.

„Það eru ýmis verkefni komin af stað. Meirihlutinn í bæjarstjórn lagði fram ákveðna sýn á breytingu skipulags nefnda við gerð fjárhagsáætlunar sem ætlað er að auka yfirsýn og skilvirkni.

Síðan eru ýmis fleiri atriði í vinnslu hjá bæði bæjarstjóra og bæjarráði. Við höfum verið með sérstakan hóp að störfum um íþróttir og íþróttamannvirki því þar bíða stórir þættir í viðhaldi og rekstri. Eins er kominn af stað hópur um fræðslumál. Þetta eru stærstu þættirnir í A-hluta sveitarfélagsins,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri.

Ákveðið hefur verið að fara af stað með íbúafundi í öllum kjörnum sveitarfélagsins í janúar. Sá fyrsti verður á Breiðdalsvík þann 15. janúar en væntanlega sá síðasti í Neskaupstað 23. janúar. „Við erum nýbúin með fjárhagsáætlun og munum sýna hvað við ætlum okkur með hana en í skýrslu Deloitte er líka talað um að það þurfi að skýra sýnina á þjónustu sveitarfélagsins. Fundirnir eru liður í að ræða stöðuna og heyra hvað fólk sér til lengri tíma. Meiningin er að vera bæði með kynningar en líka vinnu til að fá innlegg í næstu skref.“

Þarf að styrkja stefnumörkunina


Þótt gagnrýnin í úttekt Deloitte virki á köflum hörð, svo sem um að stjórnendur vinni hver í sínu horni, segir Jóna Árný að margt í skýrslunni hafi verið viðbúið. Stjórnendur hafi undanfarna mánuði lagt sitt af mörkum við úttektina, svo sem á vinnustöfum með úttektaraðilum.

Hún segir niðurstöðunum hafa verið almennt vel tekið og hugur sé að vinna að þeim úrbótum sem lagðar eru til. „Það er alltaf gagn í að fá rýni og gott að fá ytri aðila eins og Deloitte til að horfa yfir sviðið, meðal annars til að sjá hvar sóknarfæri okkar liggja. Þegar maður sá hlutina á blaði var margt þar sem maður tengdi við. Þau skref sem nú er byrjað að stíga eru rökrétt framhald af þessu. Að vinna að úrbótum er stórt samvinnuverkefni sem kjörna umhverfið leiðir og stjórnendur málaflokkanna koma að.

Rekstur Fjarðabyggðar sem heildar er umfangsmikill og töluvert flókinn. Það sem sem skýrslan segir umfram annað er að það er mikilvægt að stjórnkerfið og það sem umhverfis það er, marki stefnumörkun sem sé skilvirk og samþætt. Á því þurfi alltaf að hafa augun og við erum hvött til að horfa meira á það.

Innan stjórnkerfisins hafa orðið töluverðar mannabreytingar undanfarin misseri. Það hefur alltaf áhrif þegar nýtt fólk kemur inn í málaflokka. Við þurfum að tryggja að kerfið styðji betur við þegar nýtt fólk kemur inn þannig það sé fljótara að koma sér inn í málin. Þar er tækifæri til úrbóta.“

Þung verkefni fyrstu vikurnar


Jóna Árný tók formlega við starfi bæjarstjóra þann 1. apríl síðastliðinn, í lok viku þar sem snjóflóð féllu á íbúahús í Neskaupstað og rýma þurfti hús í fjórum af sjö byggðakjörnum sveitarfélagsins. Fyrstu vikurnar fóru í að bregðast við eftirköstunum.

„Þetta voru stór verkefni sem bættust ofan á hið hefðbundna amstur. Það þarf að passa að grunnkerfin virki vel þannig stjórnkerfið sé tilbúið að taka svona spretti. Ég ber þær væntingar til vinnunnar sem framundan er að við styrkjum grunnkerfin okkar. Við stóðum okkur vel í þessum spretti sem var í vor en það kostaði mikla vinnu frá mörgu fólki. Við þurfum alltaf að leita leiða til að auka skilvirkni og bæta stýringuna.“