Skip to main content

Kallar eftir snemmtækum úrræðum til að styðja við unglinga í vanda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jún 2025 15:07Uppfært 10. jún 2025 15:26

Heiða Ingimarsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar úr Fellabæ, gerði stöðu unglinga og fjölskyldna í vanda að umtalsefni í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í síðustu viku.


Hefð er fyrir því að varaþingmenn nýti liðinn störf þingsins til að fara upp í ræðustól í fyrsta sinn. Bið varð á því að Heiða, sem tók sæti sem varaþingmaður Ingvars Þóroddssonar þann 22. maí, fengi sitt tækifæri þar sem liðurinn var ekkert á dagskrá fyrr en í síðustu viku.

Heiða nýtti þá tækifærið og fór upp til að ræða úrræði fyrir unglinga í vanda. Heiða sagði þar sögu af æskuheimili sínu sem almennt hefði litið vel út á við en í raun hefðu foreldrar hennar þurft leiðsögn. Um tíma hafi heimilið verið komið í erfiðleika og Heiðu komið í vistun, meðal annars á Stuðlum.

Heiða segist ekki hafa átti heima þar eins og ungmenn í neyslu, heldur hafi það verið það eina í stöðunni. Hún sagðist vonast til að kerfið væri orðið betra í dag með fleiri úrræðum sem gripu börn í vanda fyrr.

„Ég horfi á nýja kynslóð ungmenna í dag, börn í þessum sömu sporum, foreldra sem elska börnin sín og sinna grunnþörfum þeirra en sjá ekki eða geta ekki tekist á við vanda þeirra, ná ekki að fóta sig og hafna jafnvel hjálp frá kerfi sem hefur ekki burði til að bregðast við.

Vanræksla birtist ekki bara í formi neyslu eða ofbeldis. Vanræksla birtist líka í úrræðaleysi. Við erum að bregðast þessum fjölskyldum og við erum að bregðast þessum börnum. Þegar yfirvöld hafa hvorki úrræði né lagastoð til að grípa inn í áður en illa fer þá er það líka vanræksla. Við vitum hvernig þetta endar. Við höfum séð það of oft. Ég hef séð það of oft,“ sagði hún.

Ríkið geti ekki verið eini aðilinn um heilbrigðisþjónustuna


Heiða kom einnig upp í síðustu viku í umræðum um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Hún sagðist finna þá þörf sem íbúi í dreifbýli, svo sem í tengslum við fjarlækningar. Hún hefði upplifað að fara „þvert yfir landið til þess eins að láta taka blóðþrýsting og mæla hæð“ barns síns.

Eins hafi hún farið í slík ferðalög til að komast að því einu að sérfræðingurinn sem átti að taka á móti barninu sé farinn í helgarleyfi sem reyndar vari í einhverjar vikur.

En Heiða tók fram að þetta virkaði í fleiri áttir og bætti við dæmi af syni sínum sem hefði beðið í þrjú ár eftir ADHD greiningu í Reykjavík en komist framar í röðinni þegar fjölskyldan flutti út á land. Samningur við einkaaðila hefði losað um stífluna.

„Ég vil ekki búa í samfélagi sem hampar þeim efnameiri og tryggir að þau komist fram fyrir röðina fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. En ég vil heldur ekki búa í samfélagi þar sem ríkið er sá eini sem fær að veita hana,“ sagði hún.

Auk þessa hefur Heiða setið í allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd.